Skoðun

Aðstöðuleysi á vökudeild Landspítala

Berglind Aðalsteinsdóttir skrifar
Eftir mikla umhugsun fann ég mig knúna til að deila persónulegri reynslu af heilbrigðisþjónustu sem reyndist mér vel en jafnframt benda á brotalöm í húsnæðismálum vökudeildar Landspítala sem brýnt er að lagfæra.

Á síðastliðnum árum hef ég starfað sem læknir bæði hérlendis og erlendis en nýlega fékk ég að kynnast því að vera hinum megin við borðið þar sem ég naut þjónustu fæðingardeildar Landspítala og nýfædd dóttir mín lagðist inn á vökudeild. Hún kom í heiminn með miklum látum og var hætt komin vegna blæðingar. Ég var gengin fulla meðgöngu þegar ég missti vatnið sem var blóðlitað. Við komuna á fæðingardeildina kom í ljós með aðstoð nýs greiningartækis að blóðið kom frá barninu. Barninu var að blæða út. Tekin var ákvörðun um að framkvæma bráðakeisara. Um 12 mínútum síðar var búið að ná barninu út. Það voru ótal mörg handtök unnin á þessum fáu mínútum af hópi vel þjálfaðs fagfólks. Barnið hafði hins vegar misst mikið blóð og var án lífsmarks. Barnalæknar hófu samstundis endur­lífgunar­tilraunir sem báru árangur eftir að gefinn var vökvi í æð og neyðarblóð. Í kjölfarið var kælimeðferð beitt til að draga úr hættu á heilaskaða. Við tóku erfiðir sólarhringar þar sem átti eftir að skýrast hvernig heilinn og önnur líffærakerfi hefðu þolað áfallið. Eftir því sem dagarnir liðu fór gæfuhjólið smátt og smátt að snúast okkur í hag. Aðeins 9 dögum síðar fórum við heim með yndislega dóttur sem dafnar vel.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa notið fyrsta flokks læknisþjónustu sem varð til þess að dóttir mín er á lífi og allt bendir til að hún sé fullkomlega heilbrigð. Það eru forréttindi að búa í landi með góðu heilbrigðiskerfi þar sem ungbarnadauði og mæðradauði er með því lægsta sem þekkist í heiminum.

Ekki pláss fyrir einn stólVökudeild Landspítalans er gjörgæslu- og sjúkradeild fyrir fyrirbura og nýbura sem þurfa á sérhæfðri meðferð að halda. Þar dvelja börn frá nokkrum klukkustundum upp í marga mánuði. Deildin er mjög vel tækjum búin enda hefur hún í gegnum tíðina notið velvildar félagasamtaka og einstaklinga sem hafa fjármagnað tækjakaup deildarinnar að mestu leyti. 

Deildin er mönnuð vel þjálfuðu starfsfólki. Þar kynntumst við einstöku fólki sem sinnir veikum börnum af mikilli alúð og hlúir á sama tíma vel að aðstandendum. Það kom hins vegar á óvart hversu þröngt er um starfsemina. Aðstaða fyrir foreldra er nánast engin. Þegar kom að því að útskrifa mig af kvennadeildinni var barnið mitt ennþá á vökudeild. Það var áfall að komast að því að aðstaðan þar býður ekki upp á að foreldrar gisti hjá börnum sínum. Þá var ekkert annað í boði en að sofa í stól eða yfirgefa barnið til að fara heim að hvíla sig. Á þessum tímapunkti var dóttir okkar að vakna upp eftir að hafa verið haldið sofandi í fjóra sólarhringa. Við foreldrarnir vorum að fá hana í fangið í fyrsta skiptið og hún að byrja að taka brjóst. Að yfirgefa barnið er það síðasta sem foreldrar vilja gera á svona stundu. 

Þegar gjörgæslumeðferðinni lauk tók við dvöl á almennri nýburastofu. Þar deila fjögur börn 20 fermetra rými með sameiginlegu skiptiborði, vaski og hirslum fyrir bleiur og fleira. Það er því þröngt í kringum hverja vöggu, lítið pláss fyrir foreldra og lítið sem ekkert næði fyrir mæður sem eru ýmist að gefa brjóst eða mjólka sig. Við hlið hverrar vöggu er með naumindum pláss fyrir einn hægindastól sem með útréttum fótskemli lokar gangveginum fyrir aðra foreldra og starfsfólk. Þessi aðstaða er engan veginn í takt við nútímann né það sem boðið er upp á í nágrannalöndum okkar í dag. Foreldrar veikra barna eru undir miklu álagi og eru í aukinni áhættu á að þróa með sér kvíða og þunglyndi. Rannsóknarniðurstöður gefa til kynna að með fjölskyldumiðaðri meðferð þar sem foreldrum gefst kostur á að dvelja allan sólarhringinn hjá börnum sínum á vökudeild megi bæta geðheilsu foreldra og tengslamyndun þeirra við barnið, stytta legutíma og fækka endurinnlögnum. Nærvera móður og barns er einnig lykillinn að árangursríkri brjóstagjöf. Á nýrri vökudeildum í nágrannalöndunum er gert ráð fyrir að foreldrar gisti hjá veikum börnum sínum, óháð alvarleika veikinda og óháð því hvort barnið dvelji þar í nokkra daga eða nokkra mánuði.

Barnaspítali Hringsins er í nýlegu húsnæði og því kemur aðstöðuleysið líklega mörgum í opna skjöldu. Það eru 17 ár síðan framkvæmdir við byggingu barnaspítalans hófust og enn lengra síðan spítalinn var hannaður. Hönnunin gerir ekki ráð fyrir að foreldrar dvelji hjá börnum sínum á vökudeild. Þessi hönnun er úrelt í dag.

Það er mikilvægt að hlúa vel að heilbrigðiskerfinu og flestir eru sammála um að bygging nýs spítala sé þáttur í því. Undanfarið hefur farið mikið fyrir umræðu um fyrirhugaða uppbyggingu Landspítalans. Staðsetningin er umdeild og margir eru þeirrar skoðunar að það komi betur út að byggja nýjan spítala frá grunni í stað þess að byggja við þann gamla. Það er mikilvægt að sú leið sem farin verður sé framtíðarlausn. Aðstaðan á vökudeild Landspítalans uppfyllir ekki kröfur nútímans og er afar brýnt að bæta úr því. Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir nýrri vökudeild á „nýjum“ Landspítala. Ég skora á ráðamenn að bæta úr því og tryggja þjóðinni spítala í takt við nútímann.




Skoðun

Sjá meira


×