Innlent

Ætla að auglýsa Grímsstaði á Fjöllum á EES svæðinu

Jóhannes Haukur Hauksson, einn eiganda að landinu á Grímsstöðum á Fjöllum.
Jóhannes Haukur Hauksson, einn eiganda að landinu á Grímsstöðum á Fjöllum.
„Nú verðum við að auglýsa jörðina til sölu á evrópska efnahagssvæðinu því þar búa um 500 milljónir manna sem mega kaupa jörðina og þurfa ekki að bera það undir Ögmund,“ segir Jóhannes Haukur Hauksson, landeigandi á Grímsstöðum á Fjöllum, í viðtali við Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag.

Hann segir landeigendur, sem eru fjórir, skoða lagalega stöðu sína vegna ákvörðunar Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um að synja eignarhaldsfélagi Huang Nubos að kaupa jörðina á Grímsstöðum.

Jóhannes Haukur lítur svo á að Ögmundur hafi verið heldur neikvæður í málflutningi um viðskiptin sem aldrei gengu í gegn. Hann vill kanna það hvort málflutningur hans á fyrri stigum málsins hafi gert hann vanhæfan.

Landeigendur eru að vonum afar vonsviknir yfir ákvörðun ráðherrans, enda hefðu þeir hagnast um tæpan milljarð á sölunni.

Jóhannesi líst ekki heldur á rök ráðuneytisins þegar þeir synjuðu Nubo, meðal annars vó þungt í rökstuðningi ráðherrans, hversu stór jörðin væri sem Nubo ætlaði að kaupa.

„Þegar Ögmundur talar um að það hafi átt að selja 300 ferkílómetra, þá er það einfaldlega rangt,“ segir Jóhannes Haukur og bendir á að heildarstærð jarðarinnar sé í raun 220 ferkílómetrar, en ríkið átti meðal annars 25 prósent af jörðinni, sem voru ekki til sölu. Þá er ótalið landið sem Nubo hafði lýst sig reiðubúinn til þess að afsala sér vegna vatnsréttinda.

Hægt er að hlusta á fróðlegt viðtal við Jóhannes Hauk hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×