Innlent

Ætla að flytja inn kjöt í næsta mánuði

andrés magnússon
andrés magnússon
Tollkvótar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum stangast á við stjórnarskrána. Þetta er álit umboðsmanns Alþingis sem tók málið fyrir eftir málaleitan Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Ráðherra fékk heimild til álagningar tollanna árið 2005, en þá gegndi Guðni Ágústson embættinu.

SVÞ fóru þess á leit við umboðsmann að hann skoðaði tollkvóta vegna innflutnings á nauta-, svína- og fuglakjöti, smjöri, ostum og unninni kjötvoru. Umboðsmaður tók ekki efnislega afstöðu til erindisins en úrskurðar þó að álagning tollanna stangist á við stjórnarskrá.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, segir úrskurðinn mjög vel rökstuddan og vera áfellisdóm yfir lagasetningunni. Hann þýði að breytingin sem gerð var á tollalögum árið 2005 haldi ekki gagnvart stjórnarskrá. „Við munum skoða hvað það þýðir í víðara samhengi og hvort ríkið sé með þessu búið að skapa sér skaðabótaskyldu.“

SVÞ hafa þegar hafið undirbúning á innflutningi á kjöti, sem af verður í næsta mánuði. „Ég er þegar búinn að leggja drög að því að flutt verði inn tiltekið magn af því sem búið er að úthluta. Óhjákvæmilega koma viðbrögð frá kerfinu.“

Ekki náðist í Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra við vinnslu fréttarinnar.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×