Innlent

Ætla að stofna hestabogfimiskóla á Íslandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Heimsþekktur hestabogfimikennari ætlar að opna hestabogfimiskóla í Ölfusi í haust, og segir íslenska hestinn henta einkar vel til íþróttarinnar. Vinsældir hestabogfimi hafa aukist mikið undanfarið, meðal annars vegna kvikmyndanna um Hungurleikana og Hringadróttinssögu. Íþróttin á rætur sínar að rekja til Mognólíu en er nú orðin vinsæl víða um heim. 

Pettra Engeländer er farsælasta bogfimireiðkona heims og hefur undanfarin 25 ár þróað sína eigin aðferð við að tengja þessa fornu bardagalist við nútímareiðmennsku. Pettra segir íslenska hestinn tilvalinn í hestabogfimi, sem byggir á gagnkvæmu trausti milli knapa og hests.  Líkamlegt jafnvægi skiptir gríðarlegu máli þar sem riðið er berbakt og beislislaust, en hestarnir eru aðeins með múl.

„Íslenski hesturinn er fullkominn í þetta. Þeir eru með fallegan gang og það er auðvelt að hitta í skotmarkið á tölti,“ segir hún.

Pettru líst raunar svo vel á aðstæður hér á landi að stefnan er tekin á að opna hestabogfimiskóla í Ölfusi  í september. Námskeiðin eru byggt upp á þann hátt að þátttakendur eru látnir gera jafnvægisæfingar bæði á jörðu og á hestbaki, læra að skjóta af boga, kenna hestinum að venjast sínu nýju hlutverki, og skjóta síðan af boga á baki meðan hesturinn er á ferð. 

„Við komum aftur í september og hefjumst handa við að byggja um hestabogfimiskólann hér á Íslandi. Við stefnum á að hafa fyrsta mótið á næsta ári, íslandsmeistaramótið í hestabogfimi. Íslendingar hafa þetta í blóðinu,“ segir hún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×