Innlent

Afar fáir að störfum í kynferðisbrotadeild

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir að tuttugu nýir lögreglumenn hafi verið ráðnir inn í almennu deildina nýverið. Það skapi rými til að fjölga í öðrum deildum.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir að tuttugu nýir lögreglumenn hafi verið ráðnir inn í almennu deildina nýverið. Það skapi rými til að fjölga í öðrum deildum. vísir/stefán
Aðeins fjórir lögreglumenn sinna rannsóknum í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana vegna langvarandi manneklu og veikinda. Fyrir skömmu bættust sumarleyfi starfsmanna ofan á veikindin og þá voru tveir rannsakendur að störfum. Tæplega 200 ný mál hafa komið á borð deildarinnar frá áramótum.

Fréttablaðið óskaði eftir upplýsingum um hversu mörgum málum væri ólokið á borði kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en án árangurs. Þó fengust tölur um ný mál á þessu ári sem sýna svart á hvítu miklar annir hjá deildinni. „Það voru 36 brot tilkynnt í júlí sem er sumarleyfistími og þá fáum við engan mannskap,“ segir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar.

Árni Þór segir að deildin, sem sé aðeins skipuð sex rannsakendum þegar fullmannað er í allar stöður, verði of fáliðuð þegar forföll verða. „Við höfum reynt að styrkja þessa deild og vonum að það gangi eftir. Þetta er langvarandi niðurskurður sem á við lögregluna í heild og vonandi verður tekið á.“

Ef rýnt er í tölur um nýtilkynnt mál til lögreglu sést að langflest brotin eru tilkynnt strax í kjölfar þess að þau eru framin. Í júlí höfðu þrjátíu mál af 36 komið upp þann mánuðinn en sex tilkynntra mála voru eldri. Júní var líka mjög erilsamur mánuður hjá kynferðisbrotadeildinni en þá var tilkynnt um 27 mál í heildina, þar af 24 sem voru nýskeð.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að allt kapp sé lagt á að fjölga starfsfólki lögreglunnar. Nýlega hafi tuttugu manns verið ráðnir inn í almennu deildina og verið sé að reyna að færa fólk á milli deilda til að fjölga í kynferðisbrotadeildinni.

„Við erum að reyna að fá fleira fólk en það er hörgull á lögreglumönnum vegna þess að það útskrifuðust bara sextán úr Lögregluskólanum núna. Það vantar á alla staði. Við viljum gjarnan gera betur og viljum að kynferðisbrotadeildin njóti forgangs. En það eru ekki allir sem passa inn í kynferðisbrotadeildina. Við viljum fá reynt og gott fólk þarna inn og erum að vinna í því.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Lögreglumenn sækja í önnur störf vegna álags

Frá árinu 2007 hefur lögreglumönnum á landinu fækkað um hundrað. Samtímis hefur fólki fjölgað á landinu. Rannsóknarlögreglumaður telur að málaflokkurinn sé löngu komin yfir þolmörk og lögreglumenn muni leita annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×