Viðskipti innlent

Afnám gjaldeyrishaftanna í fullum undirbúningi

Hafsteinn Hauksson skrifar
Seðlabankastjóri segir næstu skref í afnámi gjaldeyrishaftanna í fullum undirbúningi. Hann segir að skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs í síðustu viku merki að hægt sé að fara mun hraðar í afnámið en ella.

Gjaldeyrisútboð seðlabankans í síðustu viku er eitt af stóru skrefunum sem nefnd eru í nýjustu áætluninni um afnám gjaldeyrishafta. Útboðið fól í sér að eigendur aflandskróna keyptu evrur af seðlabankanum í nokkurs konar uppboði, en þannig gat bankinn losað um óþolinmótt fjármagn í landinu, og fengið mat á því hversu mikill þrýstingur er á krónuna.

Már Gumundsson, seðlabankastjóri, varar þó við því að lesið sé of mikið í fyrsta úboðið. Hann segir næstu skref bankans þau að að bjóða krónurnar sem bankanum áskotnuðust í útboðinu til eigenda gjaldeyris, og ljúka þannig seinni legg útboðsins, en fljótlega að því loknu verði ráðist í annað sambærilegt útboð.

„Þá fáum við enn betri upplýsingar," útskýrir Már. „Fyrsta útboðið gaf okkur vissar upplýsingar, en við þurfum að staðfesta þær í nýjum útboðum. Þá sjáum við hversu hratt er síðan hægt að fara í framhaldinu."

Hann segist ekki geta gefið nákvæma tímasetningu á hvenær næsti leggur útboðsins fer fram, þ.e. þegar aflandskrónurnar verða boðnar út til eigenda gjaldeyris, en þeir koma til með að geta fest þær í ríkisskuldabréfum með bundnu eignarhaldi. Hann fullyrðir þó að það verði fyrir sumarfrí.

Í síðustu viku var öðrum mikilvægum áfanga í afnámi haftanna náð, en þá sýndi ríkissjóður fram á getu sína til að fjármagna sig erlendis með stórri skuldabréfaútgáfu í dollurum.

„Hún verður mjög gott innlegg inn í þetta. Það var alltaf lögð áhersla á það í áætluninni um afnám hafta að það væri forsenda þess að fara kröftuglega fram að ríkissjóður hefði sannað getu sína til að endurfjármagna sig á erlendum mörkuðum. Nú er það búið, og það merkir að við getum farið mun hraðar en ella," segir Már að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×