Viðskipti innlent

Afnema vörugjöld og lækka verð strax

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þvottavélar munu til dæmis lækka um 17% og sjónvörp um 20%.
Þvottavélar munu til dæmis lækka um 17% og sjónvörp um 20%.
Eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin lagt til afnám vörugjalda í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Ef frumvarpið verður samþykkt mun breytingin taka gildi um næstu áramót. Ormsson og Samsungsetrið hafa hins vegar ákveðið að afnema vörugjöldin strax og lækka verð í samræmi við það.

Á morgun munu því mörg algeng heimilistæki líkt og þvottavélar, þurrkarar, ofnar og helluborð lækka um 17% og sjónvörp og hljómflutningstæki munu lækka um 20%.

Í fréttatilkynningu segir Einar Þór Magnússon, framkvæmdastjóri Ormsson, að fyrirtækið fagni fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hann segir afnám vörugjalda mikið sanngirnismál sem muni bæta hag allra landsmanna.

Einar segir að í seinustu viku hafi náðst samkomulag við stærstu birgja fyrirtækisins um tímabundnar verðlækkanir. Ormsson og Samsungsetrið geti þess vegna fellt niður vörugjöld strax og boðið neytendum ódýrari heimilistæki en áður.

Ekki liggur fyrir hvort að aðrar raftækjaverslanir fylgi í kjölfarið en vanalega er mikil sala á raftækjum fyrir jólin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×