Enski boltinn

Aftur til fortíðar: Viðureignir Arsenal og Liverpool ávísun á dramatík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Michael Thomas skorar markið mikilvæga á Anfield 1989
Michael Thomas skorar markið mikilvæga á Anfield 1989 Nordic Photos/Getty Images
Arsenal og Liverpool mætast í stórslag ensku úrvalsdeildarinnar á morgun. Leikir liðanna bjóða ævinlega upp á dramatík líkt og á síðasta tímabili þar sem spjöld fóru á loft og mörk voru skoruð í viðbótartíma. Það er við hæfi að rifja upp nokkrar af eftirminnilegri viðureignum liðanna.



Þegar Michael Thomas stal titlinum


26. maí 1989. Eftirminnilegasta viðureign félaganna þó af mörgum sé að taka. Leiknum hafði verið frestað og var spilaður á eftir öðrum leikjum í lokaumferð gömlu ensku 1. deildarinnar.

Liverpool var í góðum málum fyrir leikinn en liðinu dugði jafntefli til að tryggja sér meistaratitilinn. Reyndar mátti liðið tapa með einu marki en tveggja marka tap dugði Arsenal.

Michael Thomas skoraði eitt frægasta markið í sögu enska boltans í viðbótartíma og tryggði Arsenal 2-0 sigur. Flugfisksfagn Thomas er einnig afar eftirminnilegt en hann átti síðar eftir að ganga til liðs við Liverpool. Kenny Dalglish þurfti að sjá á eftir titlinum til landa síns George Graham.

Sjá flotta samantekt frá þessum magnaða leik hér.

Engillinn Robbie Fowler

Í viðureign liðanna á Highbury árið 1997 gerðist fáheyrt atvik. Gerald Ashby dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu þegar Robbie Fowler, framherji Liverpool, féll í teignum. Aldrei þessu vant stóð Fowler á lappir og gaf til kynna að um rangan dóm væri að ræða.

Fowler skrifaði síðar í ævisögu sinni að nokkrir liðsfélagar hans hefðu blótað honum á vellinum og sagt honum að loka á sér kjaftinum. Dómnum varð ekki haggað þrátt fyrir athugasemdir Fowler.

Hvort það hafi verið viljandi skal ósagt látið en Fowler misnotaði vítaspyrnu sína. Réttlætinu fullnægt hugsaði kannski einhver en sú hugsun varði ekki lengi enda fylgdi Jason McAteer á eftir og skoraði. Liverpool vann leikinn 2-1.

Sjá vítaspyrnudóminn og markið hér.

Liverpool 4-4 Andrei Arshavin

Frammistaða Rússans Andrei Arshavin gegn Liverpool á Anfield vorið 2009 er einhver magnaðasta frammistaða eins leikmanns í stórleik í ensku úrvalsdeildinni. Arshavin, sem var tiltölulega nýgenginn í raðir Arsenal og hafði aðeins skorað tvö mörk fyrir félagið, stimplaði sig rækilega inn og skoraði fjögur mörk í 4-4 jafntefli.

Úrslitin voru mikil vonbrigði fyrir lærisveina Rafa Benitez sem voru á þeim tímapunkti í harðri baráttu við Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Baráttu sem þeir áttu eftir að tapa.

Sjá flotta samantekt á mörkunum hér.

Hraðasta þrenna í sögu úrvalsdeildarinnar

Það höfðu allir gaman af Robbie Fowler, unga Englendingnum sem skaust fram á sjónarsviðið snemma á tíunda áratuginum. Leikmaðurinn virtist hafa allt það sem góður framherji þurfti að hafa en því miður varð ekki jafn mikið úr ferli hans og vonir stóðu til.

Fyrstu ár hans í ensku úrvalsdeildinni voru frábær. Framherjinn örvfætti virtist oft á tíðum geta skorað að vild hvort sem var með bylmingsskotum langt utan af velli, með skalla eða af réttum stað í teig andstæðinganna.

Fowler skoraði hröðustu þrennu sem skoruð hefur verið í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn var 3-0 heimasigur á Arsenal í fyrsta heimaleik Liverpool leiktímabilið 1994-1995. Það tók Fowler fjórar mínútur og 33 sekúndur að skora mörkin þrjú en hann setti alls 25 mörk í 42 leikjum á tímabilinu.



Sjá þrennu Fowler hér.


Þegar Michael Owen stal enska bikarnum

Allt stefndi í sanngjarnan 1-0 sigur Arsenal í úrslitum enska FA-bikarins á Þúsaldarvellinum í Cardiff árið 2001 þegar Mihcael Owen tók til sinna ráða. Hann jafnaði metin átta mínútum fyrir leikslok og tryggði Liverpool bikarinn með marki undir lokin.

Leikmenn Arsenal óðu í færum í leiknum og bjargaði Sami Hyyphia meðal annars í þrígang á marklínu auk þess sem Stephane Henchoz varði skot Thierry Henry á marklínu með hendi.

Titillinn var einn af þremur á frábæru tímabili hjá Liverpool en liðið vann einnig Deildabikarinn og sigur í Evrópukeppni félagsliða.



Sjá svipmyndir úr leiknum hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×