Viðskipti innlent

Áhrif gengislána á bankanna 64 milljarðar króna

Magnús Halldórsson skrifar
Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn mátu áhrifin af gengislánadómi Hæstaréttar frá fimmtánda febrúar síðastliðnum á tæplega sextíu og fjóra milljarða króna í uppgjörum sínum fyrir síðasta ár. Samanlagður hagnaður bankanna nam þrátt fyrir það tæplega 30 milljörðum.

Gengislánadómur Hæstaréttar frá 15. febrúar síðastliðnum hefur mikil áhrif til hins betra fyrir þá skuldara sem eru með lán sem falla undir fordæmisgildi dómsins.

Í ársuppgjöri bankanna fyrir árið 2011 þessi áhrif metin á 64 milljarða króna. Þrátt fyrir þetta, var samanlagður hagnaður bankanna tæplega 30 milljarðar og samanlagt eigið fé bankanna er meira en 440 milljarðar króna.

Íslandsbanki birti sitt uppgjör í dag, en í síðustu viku kynntu Arion banki og Landsbankinn sín uppgjör. Þrátt fyrir að enn sé töluverð óvissa uppi um fjölmörg álitamál, er tengjast gengistryggðum lánum, er staða bankanna samkvæmt efnahagsreikningum þeirra traust. Þannig er eiginfjárhlutfall allra bankanna um og yfir 20 prósent, en lágmarksviðmið FME er 16 prósent.

Þrátt fyrir þetta bera uppgjör bankanna öll glögg merki þess að útlánamöguleikar eru takmarkaðir í augnablikinu. Mikið fjármagn liggur hjá bönkunum í innlánum, á meðan ný útlán hafa lítið vaxið. Sögulega hafa útlán hins vegar vaxið hlutfallslega með hagvexti landsins, og standa vonir til þess, fjárfesting muni aukast jafnt og þétt eftir því sem margumtöluð hjól efnahagslífsins taka að snúast hraðar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×