Viðskipti innlent

Ákvörðun Seðlabankans stöðvar ekki gengisfall krónunnar

Greining Arion banka segir að ákvörðun Seðlabankans um að hætta tímabundið kaupum á gjaldeyri muni ekki á neinn hátt draga úr áframhaldandi veikingu á gengi krónunnar og þar með aukinni verðbólgu.

Í Markaðspunktum greiningarinnar segir að í það minnsta sé ekki að sjá að gjaldeyriskaup bankans hafi haft veruleg áhrif á gengi krónunnar á síðasta ári. Krónan styrktist t.a.m. hressilega þrátt fyrir umtalsverð gjaldeyriskaup bankans síðasta sumar.

Veiking krónunnar á síðari hluta árs á sér sennilega veigameiri skýringar en að bankinn hafi aukið reglubundin gjaldeyriskaup. Ástæðan sé fremur minna innstreymi ferðamannagjaldeyris, lækkun afurðaverðs á erlendum mörkuðum og gjaldeyrissöfnun stórra aðila upp í gjalddaga erlendra lána.

Það er mat greiningarinnar að þróun á greiðslujöfnuði við útlönd gefi ekki tilefni til að ætla að krónan sé of veik og hún muni eiga undir högg að sækja á komandi árum. Ólíklegt er að afgangur á viðskiptum við útlönd dugi til að mæta þeim afborgunum sem framundan eru nema samningar náist um erlendar skuldir Orkuveitunnar, sveitarfélaganna og Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×