Viðskipti innlent

Alger óvissa um afdrif Icesave

Helga Arnardóttir skrifar
Óvissa ríkir enn um afdrif Icesave málsins þrátt fyrir að eignir þrotabús gamla Landsbankans dugi fyrir öllum forgangskröfum á bankann og gott betur samkvæmt nýjasta endurmati á eignasafni hans. Ekki er enn vitað hvort Hollendingar og Bretar höfði skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu falli úrskurður EFTA dómstólsins þeim í hag.

Fyrir helgi tilkynnti skilanefnd Landsbankans að endurheimtur upp í kröfur á bankann eru nú áætlaðar um 1.332 milljarðar króna miðað við gengi krónunnar þegar kröfum var lýst, en forgangskröfur á bankann, sem eru einkum komnar til vegna Icesave innlánanna og heildsöluinnlána bankans erlendis, nema 1.319 milljörðum. Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður sem sat í Icesave samninganefndinni fagnar þessum fréttum. Hann segir þó enn mikla óvissu í málinu.

„Eftirlitsstofnun EFTA hefur haldið því fram að íslensk stjórnvöld hafi átt að greiða öllum innistæðueigendum í október 2009. Að það hafi ekki verið gert hafi verið brot gegn EES samningnum," segir Jóhannes Karl Sveinsson.

Jóhannes segir það stærsta áhyggjuefnið og góðar heimtur úr þrotabúinu breyti þar engu um. Þá hafi Hollendingar og Bretar látið í það skína í samningaviðræðunum að þeir hyggist sækja rétt sinn og höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu vegna vaxtagreiðslna frá 2008.

„Deilan snýst um það og hvað þeir síðan gera þegar búið er að dæma þetta mál fyrir efta dómstólnum og við sjáum hvað kemur út úr þrotabúinu. Það vitum við ekkert um," segir Jóhannes. Hann segir að óvíst sé hvað Bretar og Hollendingar geri síðan í framhaldinu. Jóhannes telur þó líklegt að Bretar og Hollendingar bíði eftir niðurstöðu EFTA dómstólsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×