Skoðun

Áliðnaðurinn: Umhverfismál á heimsvísu

Bergur Sigurðsson og Einar Þorleifsson skrifar
Álframleiðsla byggir á námavinnslu á stöðum þar sem er að finna sérstaklega álríkan rauðan jarðveg sem nefnist báxít og verður til á löngum tíma við mikla útskolun efna á úrkomusvæðum sitt hvorum megin miðbaugs. Námavinnslan fer vanalega þannig fram að flett er burt gróðurþekju til þess að komast að báxítlögunum sem eru misþykk og oft ekki nema 2-4 metrar. Báxítið er numið brott og flutt í landfrekar súrálsverksmiðjur þar sem jarðvegurinn er leystur upp með vítissóda og kalki og síðan er súrálið (Al2O3) einangrað frá eðjunni. Vinnslunni fylgir mikil og skaðleg rykmengun og gríðarleg myndun eitraðra úrgangsefna, þ.e. rauðeðju sem hefur hátt sýrustig og í sumum tilfellum þungmálma. Slys þar sem stíflugarðar um eðjulón bresta komast sjaldan í hámæli ef frá er talið slysið í Ungverjalandi fyrr í vetur. Þar var hætta á að eitraður leirinn myndi flæða óhindrað út í Dóná og spilla vistkerfi hennar allt til Svartahafsins, m.a. Dónárdeltunni, einu merkilegasta votlendissvæði jarðar þar sem milljónir fugla hafast við.

Báxítnámur eru helst í fátækum löndum á borð við Jamaíka sem ber margvísleg ör eftir þessa ömurlegu námavinnslu. Þjóðin er fátæk og lítið menntuð og hefur engin breyting orðið þar á þrátt fyrir þann mikla námaiðnað sem þar hefur risið og starfað. Víðáttumiklum svæðum hefur verið gjörspillt þar sem allur gróður er eyðilagður og drykkjarvatn sumstaðar mengað með tilheyrandi þjáningum fyrir íbúana. Opnar námur eru að klárast og álfyrirtækin sækjast eftir að fá að opna ný námasvæði með þeim afleiðingum að með síðustu frumskógum landsins yrði rutt burt. Fjallaskógar Jamaíku eru ríkir af einlendum tegundum, þ.e. tegundum sem ekki er að finna í öðrum löndum, og má þar nefna svarthöfðapáfagaukinn og svölustélsfiðrildið en báðar tegundirnar eru bráðri í útrýmingarhættu. Svölustélsfiðrildið er eitt stærsta og skrautlegasta fiðrildi í heiminum.

Gínea í Vestur-Afríku er báxít auðugasta land í heimi og eru Rio Tinto, Alcoa og Russal öll að koma sér þar fyrir. Landið er bláfátækt og aðeins 24% íbúa eru læs. Fyrir ári síðan réðust þar hermenn á fólk á löglegum mótmælafundi á íþróttaleikvangi höfuðborgarinnar og myrtu 157 manns hið minnsta en nauðguðu og limlestu aðra. Fólkið var að mótmæla herstjórninni og framgöngu álfyrirtækjanna. Ef fram fer sem horfir munu álfyrirtækin eyðileggja þetta land - lífríkið, ræktarlöndin, skógana - og viðhalda herstjórninni en skilja fólkið eftir í eymd og mengun þegar þau hafa klárað námurnar. Umdeildar báxítnámur eru einnig á Indlandi í Órissa, í Brasilíu í Trompetas, í Ástralíu og víðar. Hvarvetna með tjóni á náttúru, víða á vatnafari og ræktarlöndum og sums staðar hafa frumbyggjar verið hraktir á brott áður en hægt var að hefjast handa við námavinnsluna.

Ál er m.a. notað í óumhverfisvænar umbúðir, t.d. áldósir og álpappír, sem ættu að vera með öllu óþarfar. Talið er að allt að 30% álsins séu notuð í hergagnaframleiðslu en afar erfitt er að finna tölulegar upplýsingar um þau mál. Álduft er þar notað sem sprengiefni í hitasprengjum (þ.e. thermobaric bombs) sem losa gríðarlegan varma. Orkan sem losnar sem varmi þegar álið (Al) brennur og verður aftur að súráli (Al2O3) samsvarar þeirri sem notuð var í frumframleiðslunni, þ.e. í rafgreiningunni sem fram fer í álverunum m.a. hér á landi. Álfyrirtækin hrósa sér af áli sem léttmálmi í farartæki og endurvinnanlegum málmi. Ekkert stóru álfyrirtækjanna leggur hins vegar mikið upp úr því að vera með endurvinnsluverksmiðjur.

Sum álfyrirtækin hafa haft uppi yfirlýsingar um sjálfbærni enda þótt greinin sé í sjálfu sér ósjálfbær þar sem námur eru takmarkaðar og námuvinnslan frek á dýrmætt lífríki. Til fegrunar veita þau styrki til umhverfismála en þeir nema aðeins litlu broti af hagnaðinum og vega hvergi nærri neitt á móti umhverfisspjöllunum sem þau valda. Hámarka skal gróðann með sem minnstum kostnaði hluthöfum til handa en lítið sem ekkert verður eftir í hráefnalöndum sem leggja til námur og raforku til framleiðslunnar.

Á Íslandi hafa 300 km2 verið lagðir undir virkjanalón. Þjórsá, Blöndu, Tungná, Jökulsá á Dal og Lagarfljóti hefur verið gjörbreytt. Jökulánum Hólmsá, Jökulsá á Fjöllum (Kreppu), Héraðsvötnunum í Skagafirði og Skjálfandafljóti er öllum ógnað með hugmyndum um fleiri álver. Næringarefni jökulvatna berast ekki lengur til sjávar lífríkinu til eflingar heldur setjast til í lónunum sem fyllast mis hratt. Árósum jökulfljótanna, hrygningarstöðvum fiska og fæðustöðvum fugla er spillt með þessu móti en áhrifin á lífríki sjávar eru nær ókönnuð og því allsendis óþekkt. Nú vilja álfyrirtækin auk þess seilast í meira eða minna öll mögulega nýtanleg háhitasvæði landsins. Árið 2009 notuðu álverin þrjú 74% allrar raforkuframleiðslu landsins og mun notkun þeirra ná um 80% með stækkun álvers Rio Tinto í Straumsvík. Norski olíusjóðurinn hafnar viðskiptum við Rio Tinto og ástæðan fyrir banninu eru umhverfisspjöll fyrirtækisins. Landsvirkjun setur slíkt hinsvegar ekki fyrir sig enda er Rio Tinto einn stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins og er vöxtur í viðskiptunum. Það er löngu orðið tímabært að íslensk stjórnvöld og orkufyrirtæki taki ábyrga afstöðu til landsins og umheimsins, sýni samfélagslega ábyrgð og hafni áframhaldandi vexti þessarar greinar á Íslandi.








Skoðun

Sjá meira


×