Innlent

Allnokkrar ábendingar borist

Freyr Bjarnason skrifar
Viðamikil leit var gerð í sjó og í lofti, án árangurs.
Viðamikil leit var gerð í sjó og í lofti, án árangurs.
„Það hafa komið allnokkrar ábendingar sem verður unnið úr í framhaldinu,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Lögreglan leitar nú að þeim sem hafði samband við Landhelgisgæsluna og tilkynnti um leka í báti á Faxaflóa. Viðamikil leit var gerð í kjölfarið, á sjó og í lofti, án árangurs.

Lögreglan birti hljóðupptöku af neyðarkallinu á Facebook-síðu sinni í dag. Þar voru þeir sem þekkja röddina og vita hver þar talaði hvattir til að hafa samband við lögregluna. „Það hefur verið haft samband við okkur símleiðis, í gegnum Fésbókarsíðuna og í tölvupósti,“ segir Kristján.



Tilkynning lögreglu hljóðaði svo:

Sunnudaginn 2. febrúar sl., laust fyrir klukkan þrjú síðdegis, barst neyðarkall frá báti úti við Faxaflóa. „Báturinn er farinn að leka mikið og við erum að fara í flotgallana,” sagði m.a. í tilkynningunni. Brugðist var skjótt við og hófst mikil leit að bátnum, enda málið grafalvarlegt. Reynt var árangurslaust að ná aftur sambandi við tilkynnanda, en engar frekari upplýsingar voru um bátinn eða staðsetningu hans.

Báturinn fannst ekki þrátt fyrir viðamikla leit, en grunur leikur á að um hafi verið að ræða visvítandi ranga tilkynningu senda til vaktstöðvar neyðarsímsvörunar. Málið er nú til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem birtir hljóðupptöku af neyðarkallinu. Þeir sem þekkja röddina og vita hver þarna talar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×