Skoðun

Alræði lýðræðisins?

Hildur Jónsdóttir skrifar
Fyrir liggur í borgarráði að taka fyrir tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um hertar reglur um aðkomu trúar og lífsskoðunarfélaga að skólum Reykjavíkurborgar. Nokkur umræða hefur átt sér stað um þessi mál og á að afgreiða endanlega núna í byrjun ágúst.

Sem foreldri fjögurra skólabarna er mér nokkuð brugðið að ekki hafi verið leitað álits skólasamfélagsins sjálfs. Sem virkt foreldri innan þess vil ég benda á að skv. lögum skal sérhver skóli á landinu hafa skólaráð. Innan skólaráðs sitja fulltrúar allra í skólasamfélaginu: foreldar, kennarar og nemendur ásamt fulltrúa grenndarsamfélags. Þetta ráð á að geta haft áhrif á þá skólastefnu sem hver og einn skóli telur að eigi að gilda innan skólans.

Á þessum tímum sem við lifum þar sem umræða um almennt og borgaralegt lýðræði er hávær þykir mér einkennileg þróun hjá Reykjavíkurborg að ætla að taka slíkar ákvarðanir í trássi við skoðun skólasamfélagsins. Við viljum lifa í lýðræðslegu samfélagi þar sem lýðræðið virkar að sönnu. Eða ætlum við að láta yfirvöld ákveða allt fyrir okkur og börn okkar? Að setja slíkar hömlur á skólastarf sem Reykjavíkurborg stingur upp á tel ég beinlínis hættulegt og minna á fyrri tíma einræðisstefnur sem ætluðu sér leynt og ljóst að útrýma öllum skoðunum nema sinni eigin. Þar á meðal má nefna Hitler, sem fjarlægði fermingarfræðslu úr skólanum vegna þess að hún stangaðist á við hans eigin hugmyndafræði.

Ég vænti þess að íslenskt samfélag sé ekki svo illa statt að það meini skólasamfélaginu sjálfu að ráða fram úr þeim málum sem upp koma. Það ætti að vera til umræðu í skólunum en ekki hjá yfirvaldinu hvort ekki megi hengja upp auglýsingar um trúarlegar uppákomur eða dreifa Nýja Testamentinu innan skólans. Að hampa einni heimsmynd á sama tíma og önnur er tortryggð og litin hornauga er mjög á skjön við þá fjölmenningu sem er á Íslandi.

Þessari tillögu vil ég því mótmæla harðlega. Ég legg til að við látum þetta mál algerlega falla niður og væntum þess í stað fjörugrar umræðu innan skólans, í skólarráðum landsins og búumst við meiri fjölbreytni innan skólasamfélagsins þar sem foreldrar, kennarar og börnin taka virkari þátt í þróun skólans en ekki yfirvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×