Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir hvatti Fabrikkuna til þess að „hætta að taka þátt í einu hörmulegasta dýraníði veraldar og taka Foie Gras af matseðlinum“. Vísaði hún á umfjöllun um umdeildar aðferðir við framleiðslu andalifrar.
„Frönsk andalifur er vissulega mjög umdeilt hráefni og það vissum við þegar við tókum það inná matseðil hjá okkur á sínum tíma. Ástæðan var sáraeinföld: Pörun nautakjöts og andalifrar er vinsæl og algeng á veitingastöðum víðsvegar um heiminn,“ sagði Jóhannes í svari á Facebook-síðu Fabrikkunnar í gær.
Sjá einnig: 40 milljónir andarunga kramdir lifandi árlega
Hann bætti hins vegar við að í ljósi góðra ábendinga frá viðskiptavinum, og eins sökum þess að andalifrin selst lítið á Fabrikkunni, hefði verið ákveðið að taka hana af matseðlinum.
„Það er vissulega svo að mörg sjónarmið eru uppi um allan heim sem tengjast framleiðsluaðferðum á ýmiskonar matvælum. Við sem framreiðum mat getum ekki annað en staðið við val okkar á hráefnum, en að sama skapi reynt að vera opnir og móttækilegir fyrir ábendingum viðskiptavina okkar. Þannig höfum við starfað fram að þessu og munum gera áfram,“ segir Jóhannes.
Guðný Nielsen, stjórnarmaður í Velbú, fagnar ákvörðuninni í samtali við RÚV en hvetur Fabrikkumenn til að kynna sér hvernig framleiðsla andlifrar sé háttað í heiminum. Geri þeir það verði þeir vafalítið stoltir af ákvörðun sinni.