Skoðun

Árangursrík viðverustjórnun

Vilhjálmur Kári Haraldsson skrifar
Undanfarin ár hafa leikskólar í Garðabæ tekið þátt í tilraunaverkefninu Virkur vinnustaður. Verkefnið er á vegum Starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK og tilgangurinn verkefnisins er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og aðstoð við að móta og innleiða stefnu um velferð og fjarvistir. Áhersla er lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun, með þátttöku stjórnenda og starfsmanna við þarfagreiningu vinnustaðarins, og útfærslu á stefnu og leiðum eftir því sem best hentar hverri starfsemi. Hver leikskóli hefur mótað sér viðverustefnu og liður í henni er svokallað viðverusamtal sem er öflugt verkfæri viðverustjórnunar.

Útgangspunktur samtalsins er umhyggja vinnustaðarins fyrir starfsmanninum og sameiginlegt markmið stjórnanda og starfsmanns að leggja áherslu á góða heilsu starfsmannsins, jákvæðan starfsanda og starfsánægju.

Allir leikskólar Garðabæjar hafa á undanförnum þremur árum unnið markvisst að viðverustjórnun og margir þeirra náð góðum árangri. Má þar nefna fækkun veikindadaga á leikskólanum Holtakoti en þar fækkaði veikindadögum um 35% á milli áranna 2012 og 2013 og vill Ragnhildur Skúladóttir leikskólastjóri þakka markvissri viðverustjórnun betri mætingu starfsfólks. Árangur leikskólans Kirkjubóls hefur einnig vakið verðskuldaða athygli en í viðtali við leikskólastjórann Mörtu Sigurðardóttur á heimasíðu VIRK, kemur fram:

„Verkefnið hefur skilað okkur því að fólk hugsar um sig sem heilbrigt og innan leikskólans er unnið út frá heilbrigði, bæði hvað varðar starfsfólk og börnin sem hér dvelja.“

Mannauðsstjóri Garðabæjar flutti á dögunum erindi á ráðstefnunni Viðverustjórnun og heilsueflandi aðgerðir á vinnustað fyrir stjórnendur hjá ríki og sveitarfélögum en það bar yfirskriftina Viðverustjórnun hjá Garðabæ – árangur og áskoranir. Þar fór hann yfir ferlið við innleiðingu viðverustefnu og þær aðgerðir sem hafa skilað árangri.

Í endurskoðaðri mannauðsstefnu Garðabæjar er viðverustjórnun sett í forgrunn og stefnan verður innleidd í allar stofnanir Garðabæjar á næstunni.




Skoðun

Sjá meira


×