Innlent

Ármann nýr bæjarstjóri í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi verður næsti bæjarstjóri í sveitarfélaginu en nýr meirihluti í Kópavogi var kynntur á blaðamannafundi sem hófst klukkan hálf fimm í dag. Núverandi bæjarstjóri, Guðrún Pálsdóttir, mun hverfa aftur til fyrri starfa sinna sem sviðstjóri hjá Kópavogsbæ.

Nýja meirihlutann skipa fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa. Hann mun formlega taka til starfa þann fjórtánda febrúar næstkomandi. Margrét Björnsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins verður forseti bæjarstjórnar. Rannveig Ásgeirsdóttir, Lista Kópavogsbúa verður formaður bæjarráðs og Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokks varaformaður.

Í tilkynningu segir að málefnasamningur flokkanna verði kynntur fulltrúaráðum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks síðar í dag. Að því loknu verður hann gerður opinber.

Það vekur athygli að Listi Kópavogsbúa skuli hafa samþykkt pólitískan bæjarstjóra á borð við Ármann þar sem helsta baráttumál þeirra í síðustu kosningum var að bæjarstjóri ætti að vera án pólitískra tengsla. Rannveig Ásgeirsdóttir sagði á blaðamannafundinum í dag að áfram yrði unnið að því að koma á bættri stjórnsýslu í bænum jafnvel þótt bæjarstjórinn verði nú pólitískur. Þá benti hún á að Lista Kópavogsbúa hefði að minnsta kosti tekist að hafa ópólitískan bæjarstjóra í eitt og hálft ár í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×