Viðskipti innlent

Árni Páll ekki á því að ríkið verði skaðabótaskylt

VIðskiptaráðherra óttast ekki að ríkið geti orðið skaðabótaskylt, fallist Eftirlitsstofnun EFTA á sjónarmið íslenskra grasrótarsamtaka um að stjórnvöld og dómskerfið hafi brotið á gengislánaskuldurum.

Fjöldi manna virðist ósáttur við hvernig dómskerfið og stjórnvöld meðhöndlaði hin ólöglegu gengislán ef marka má að bæði grasrótarsamtök skuldara og um eitt þúsund einstaklingar að auki standa að baki formlegrar kvörtunar sem nú hefur verið send til ESA vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda og stjórnsýslu á neytendarétti.

Kvörtunin er í nokkrum liðum og ítarlega rökstudd á 18 kílógrömmum af pappír. Í grófum dráttum má segja að kvartað sé undan því að dómaframkvæmd og lagasetning Alþingis gangi þvert á lögleiddan neytendarétt.

Björn Þorri Viktorsson, talsmaður hópsins, sagði í Bítinu í morgun að ef ESA féllist á þeirra sjónarmið þá væri enn og aftur verið að leggja stórfellda tjónsáhættu á ríkið.

Þessu segist Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra vera ósammála. Hann segist ekki geta fengið það til að ganga upp að ríkið verði bótaskylt fallist ESA á sjónarmið Íslendinganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×