Innlent

Faxaflóasvæðið mengist mikið

Faxaflóasvæðið verður eitt mengaðasta svæði Evrópu ef allar stóriðjuframkvæmdir á svæðinu verða að veruleika. Því heldur prófessor við Háskóla Íslands fram. Árleg losun brennisteinsdíoxíðs á Faxaflóasvæðinu, þ.e. svæðinu frá Straumsvík og upp í Hvalfjörð, gæti orðið allt að 13 þúsund tonn á ári þegar stækkanir álvera og bygging rafskautaverksmiðju á Katanesi verða að veruleika. Það magn er helmingur af losun brennisteinsdíoxíðs í Noregi sem er 26 þúsund tonn á ári og nær helmingur þess sem Danir losa. Oddur Benediktsson, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, segir að eflaust verði meiri mengun í Aþenu og annars staðar á þurrum og hlýjum dögum, vegna bílaumferðar og annars, en Faxaflóasvæðið sé að verða eitt það mengaðasta. Oddur hefur skrifað umhverfisráðherra og sveitarstjórnum opið bréf þar sem hann lýsir áhyggjum sínum vegna mengunarinnar. Hann segir að sumar sveitastjórnir hafi spurt hann hvort hann hafi verið með réttar tölur og hann hafi svarað því til að þær væri að finna í skýrslum Hagstofunnar og þeim sem álverksmiðjunar gefi út. Umhverfisráðherra hafi þó ekki svarað bréfi hans. Aðspurður hvort sveitastjórnir á Faxaflóasvæðinu eigi að hafa áhyggjur málinu segir Oddur að þær eigi að hugsa um heilbrigði í umhverfi íbúanna. Ætla má að loftmengun verði ekki eina mengunin sem fólk mun fetta fingur út í. Einhverjum mun eflaust finnast sjónmengun af stærra álveri í Straumsvík. Svo stórt verður það að Reykjanesbrautin verður færð í lykkju til hliðar. Til dæmis munu erlendir ferðamenn þurfa að leggja lykkju á leið sína fram hjá álverinu á leið inn í landið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×