Erlent

Kjarnasamrunaver til Frakklands

Frakkland hefur verið valið til þess að hýsa kjarnasamrunaofn sem nýta á í tilraunaskyni. Afar vandasamt er að framkalla og stýra kjarnasamruna en skili vinnslan árangri er kominn fram orkugjafi sem talinn er umhverfisvænni en flestar aðrar orkuvinnsluaðferðir. Bandaríkin, Japan, Suður-Kórea, Rússland og Kína, auk Evrópusambandsins, standa þessu umfangsmikla verkefni. Verja á um 830 milljörðum króna í byggingu og rekstur versins og möguleiki er á að allt að tíu þúsund ný hálaunastörf verði til í tengslum við verkefnið. Því hefur samkeppnin um hvar byggja eigi tilraunastöðina verið hörð. Japanar sóttu fast að fá ofninn til sín en féllust svo á að hann yrði byggður í Cadarache, nærri Marseille í Frakklandi, gegn því að Japanar fái að vinna fimmtung sérfræðistarfa í verinu. Í hefðbundnum kjarnorkuverum er rafmagn framleitt með kjarnaklofnun. Við kjarnasamruna eru hins vegar vetnissamsætur látnar renna saman en þá losnar gífurleg orka úr læðingi. Því eru vetnissprengjur mun öflugri en venjulegar kjarnorkusprengjur. Miklar vonir eru bundnar við kjarnasamruna sem framtíðarorkugjafa. Eldsneyti til kjarnasamruna má finna hvarvetna í umhverfinu, til dæmis í vatn. Samkvæmt BBC er talið er að úr einu kílói af kjarnasamrunaeldsneyti megi fá jafn mikla orku og úr 10.000 tonnum af jarðeldsneyti. Kjarnorkuúrgangurinn sem fellur til við vinnsluna er frekar lítill um sig og auk þess tekur hann mun skemmri tíma að brotna niður en úrgang sem verður til vegna kjarnaklofnunar. Við þetta má svo bæta að engar gróðurhúsalofttegundir verða til við vinnsluna. Tilraunir eru þó vandkvæðum bundnar því þær krefjast þess að gas sé hitað í meira en hundrað milljón gráður sem er margfaldur hiti miðju sólar þar sem stöðugur kjarnasamruni fer fram. Slíkan hita er útilokað að framleiða við eðlilegar aðstæður á jörðinni og því færi vinnslan fram í sérstöku rafsegulsviði. Umhverfisverndarsamtök eru vantrúuð á að kjarnasamruni sé eins skaðlítill umhverfinu og formælendur verkefnisins halda fram. Þeir benda auk þess á Cadarache sé á jarðskjálftasvæði.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×