Innlent

Íslendingar koma í veg fyrir botnvörpubann

Málamiðlunartillaga um alþjóðlegt bann við botnvörpuveiðum á úthöfunum var felld á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, í gærkvöldi, fyrir fyrir tilstuðlan Íslendinga. Umhverfisverndarsinnar eru æfir.

Í tillögunni var gert ráð fyrir að bannið yrði til bráðabirgða og einhverjar aðrar tilslakanir gerðar frá upphaflegu tillögunni, þar sem úthafsveiðar með botnvörpu voru með öllu bannaðar.

Íslendingar hafa barist hart gegn algjöru banni án nokkurra undangenginna rannsókna, enda talið að næsta skrefið yrði að fara af úthöfunum og inn í fiskveiðilögsögur strandríkja og banna allar botnvörpuveiðar þar.

Hvorki utanríkisráðuneytið né sjávarútvegsráðuneytið hafa nokkrar upplýsingar um hvað gerðist í New York í gærkvöldi, nema hvað ráðuneytin vita að málin voru þar til umræðu.

Greenpeace samtökin segja hinsvegar að Íslendingar og nokkrar aðrar áhrifamiklar fiskveiðiþjóðir hafi komið í veg fyrir að málamiðlunartillagan yrði samþykkt. Eru Íslendingum ekki vandaðar kveðjurnar í yfirlýsingum frá Grænfriðungum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×