Innlent

Aldraðir þurfa að leita aðstoðar til að geta haldið jólin

Aldraðir þurfa í auknum mæli að leita sér aðstoðar til að geta haldið jólin hátíðleg. Ellilífeyrisþegar, allt upp í áttrætt, biðu í röðum eftir því að fá matarpakka fyrir jólin. Þetta er sorgleg þróun, segir félagsráðgjafi sem starfar við úthlutunina en fjárráð hópsins eru svo naum að hann má ekki við neinum aukaútgjöldum sem fylgja jólunum.

Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Reykjavíkurdeild Rauða krossins stóðu sameiginlega að matarúthlutun fyrir jólin. Þetta er annað árið í röð sem að þessir aðilar taka sig saman og útdeila matarpökkum til þeirra sem á þurfa að halda. Um sextánhundruð umsóknir bárust af landinu öllu og eru þær rúmlega eitt hundrað fleiri en í fyrra. Á bak við þessar umsóknir standa um fimm þúsund einstaklingar. Í ár mátti sjá ákveðna breytingu á þeim sem fengu aðstoð. Hópur ellilífeyrisþega, allt upp í áttrætt var að koma í fyrsta sinn.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, telur það sorglega þróun að áttræðir einstaklingar séu að leita sér matarhjálpar. Vilborg segir hart í ári hjá öldruðum og nýir útreikningar hjá Tryggingarstofnun hafi valdið því að fólk missi bætur sem það hefur haft.

Aukning varð einnig á umsóknum sem bárust utan af landi. Vilborg telur að rekja megi það bæði til hækkandi verðs á leigumarkaðnum í höfuðborginni og fjölgun innflytjenda sem starfa margir hverjir úti á landi og hafa takmörkuð réttindi ef þeirra missa vinnu sína.

Það eru þung spor sem margir stíga þegar þeir leita sér aðstoðar og fyrir marga væri jólin dapurleg ef þeir fengju ekki matarpakka. Hópurinn hefur það naum fjárráð að hann má ekki við neinum auka útgjöldum vegna jólanna.

Samtök verslunar og þjónustu spáðu því að Íslandsmet yrði slegið í verslun á Þorláksmessu og að salan myndi þá nema þremur milljörðum króna. Kaupgleðin virðist eiga sér lítil takmörk og þeir sem lítið geta leyft sér á þessum tíma eiga oft erfitt. Vilborg segir bilið milli fátækra og ríkra hér á landi vera að breikka. Þeir sem séu ríkir geti gert meira en áður en hinir sitja eftir og upplifa sig fátækari en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×