Innlent

Skoða að láta Wilson Muuga standa áfram

Hugsanlegt er að eigandi og tryggingafélag Wilson Muuga, sem strandaði við Hvalsnes fyrir jól, óski eftir því við umhverfisyfirvöld að skipið fái að standa áfram þar sem það mengi ekki lengur. Það yrði þá aðeins aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Engin mengun á að stafa frá skipinu lengur eftir að starfsmenn Olíudreifingar og Framtaks luku í gær við að hreinsa alla svartolíu úr lest flutningaskipsins Wilson Muuga sem strandaði við Hvalsnes fyrir jól. Olían kom úr botntönkum, þegar lestargólfið rofnaði í hafróti. Olíunni var dælt í kör, sem síðan voru flutt í land með þyrlu. Verkið gekk vel náðust um 40 tonn af svartolíu úr lestinni. Að því búnu var allur dælubúnaður fluttur í land.

Alls hafa ríflega 130 tonn af svartolíu, smurolíu og glussa verið fjarlægð úr skipinu frá því að aðgerðir Umhverfisstofnunar hófust. Í tilkynningu frá stofnuninni segir að þrátt fyrir þetta sé hugsanlega enn einhver olía milli banda í botntönkum skipsins og verður fylgst með því hvort eitthvað smiti upp í lestina næstu daga.

Að öllu venjulegu ætti niðurrif að geta hafist á næstunni, en samkvæmt heimildum fréttastofunnar eru eigandi og tryggingafélag skipsins að íhuga möguleika á undanþágu til þess, í ljósi þess hversu erfitt og dýrt það yrði og með hliðsjón af því að ekki stafi lengur mengun af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×