Innlent

Leysum ekki vandamál með því að taka upp evruna, segir forstjóri Glitnis

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, segir bankann ekki hafa í hyggju að gera upp í evrum líkt og Straumur Fjárfestingabanki geri og getgátur hafi verið uppi um að Kaupþing sé að íhuga. Hann segir að ekki megi gleyma kostum íslensku krónunnar og vísar frekar til ábyrgðar hins opinbera.

Sterkur orðrómur hefur verið í gangi að undanförnu um að fleiri bankar bætist í hóp Straums-Burðaráss og geri upp í evrum en bankinn fékk til þess nýlega heimild frá Seðlabankanum. Annar banki, Kaupþing banki, færir um helming hlutafjár síns í erlendri mynt með sérstöku leyfi frá Seðlabankanum og hefur það gefið orðróminum byr undir báða vængi. Forstjóri Glitnis segir að bankinn hafi ekki í hyggju að feta í fótspor Straums. Það sé ekki mat forráðamanna bankans að það sé nauðsynlegt að gera upp í evrum og henda krónunni fyrir róða, þó svo að starfsemi og umsvif Glitnis fari í síauknum mæli fram á erlendri grundu.

Bjarni segir frekar vilja sjá styrka peninga-og fjármálastjórn hins opinbera hér á landi. " Þetta er ekki spurning um að hafa tröllatrú á íslensku krónunni, þetta er gjaldmiðilinn sem sé í gangi og hann endurspeglar styrk efnahagslífsins á hverjum tíma.Það er eðli gjaldmiðla."

Aðspurður hvað honum finnist um orð margra að undanförnu um að íslenska krónan sé orðin það veik að það sé aðkallandi að íhuga aðra kosti, segir Bjarni að íslenskt samfélag hafi gengið í gegnum mikið þenslutímabil að undanförnu og peningamálayfirvöld þurfi að sjá til þess að lendingin verði mjúk.

"Þeim mun verr sem lendingin verður, þeim mun meiri veikleika setjum við í krónuna. Ábyrgðin liggur í fjármálastjórninni og við leysum ekki vandamál með því að taka upp evruna."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×