Innlent

Framkvæmdasjóður aldraðra borgaði framtíðarsýn heilbrigðisráðherra

Heilbrigðisráðherra fékk eina og hálfa milljón úr framkvæmdasjóði aldraðra til að prenta og dreifa bæklingi um sýn ráðherrans í öldrunarmálum. Ráðherrar heilbrigðismála hafa sótt fé til óskilgreindra þróunarverkefna úr framkvæmdasjóði aldraðra á liðnum árum.

Samkvæmt lögum á að nota framlög úr sjóðnum til að byggja og viðhalda stofnunum og dvalarheimilum fyrir aldraða. Þá er einnig heimilt að nota sjóðinn til annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Mikil brotalöm hefur verið á því að sjóðnum sé varið til framkvæmda í öldrunarþjónustu og hefur drjúgur hluti hans farið í að fjármagna rekstur.

Gerð bæklingsins Ný sýn, nýjar áherslur kostaði um hálfa milljón en níu hundruð þúsund kostaði að dreifa honum. Hann fjallaði eins og nafnið gefur til kynna um sýn ráðherra á málaflokkinn.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra segist telja að efni bæklingsins hafi átt erindi við aldraða og útgáfa hans á kostnað sjóðsins sé innan þeirra heimilda sem séu í lögum um sjóðinn.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir hins vegar siðlaust að prenta áróðursbækling á kostnað sjóðsins sem sé ætlaður í uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila og hún muni krefja ráðherrann skýringa í þinginu á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×