Innlent

Sætir geðrannsókn vegna íkveikju

Kona er grunuð um að hafa kveikt í fjölbýlishúsi í Reykjavík í gærkvöldi og með því stofnað lífi og limum samborgara sinna í hættu. Henni verður gert að gangast undir geðrannsókn.

Íbúðin er á þriðju hæð fjölbýlishúsi vestarlega á Hringbraut og eru sex íbúðir við stigaganginn. Vegfarendur tilkynntu um reyk út um glugga á íbúðinni seint í gærkvöldi og þegar slökkvilið kom á vettvang logaði talsverður eldur innandyra og er þar allt stór skemmt eða ónýtt af völdum reyks og hita.

Þá barst reykur inn í aðra íbúð í húsinu og olli þar nokkru tjóni en engan sakaði. Konan hafði komið sér út og yfir í aðra íbúð en lét ekki vita af eldinum. Þegar lögregla fann hana var hún flutt á slysadeild til skoðunar en þaðan í fangageymslur. Áður hafði lögregla reynt að vista hana á geðheilbrigðisstofnun vegna þess að hún var í annarlegu ástandi. Það tókst ekki fyrr en í morgun.

Ljóst þykir að hún hafi ógnað almannahagsmunum með framferði sínu en framvinda málsins veltur að nokkru á niðurstöðu geðrannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×