Innlent

Lét ekki vita af eldi

Vanheil kona, sem nágrannar hafa lengi talið að þyrfti að vistast á geðsjúkrahúsi kveikti í íbúð sinni í fjölbýlishúsi í Reykjavík í gærkvöldi og ógnaði þar með öryggi allra í húsinu. Nágrannarnir hafa óttast að hún gæti orðið sjálfri sér og öðrum að voða.

Á tólfta tímanum í gærkvöldi fann fólk í nálægum húsum brunalykt og sá hvar reykur stóð út um glugga á íbúð konnnar. Kallað var á slökkvilið að fjölbýlishúsinu sem er við vestanverða Hirngbrautina í Reykjavík.

Mikill eldur logaði inni í mannlausri íbúðinni þegar slökkvilið kom á vettvang, en hún er á þriðju hæð. Engan sakaði, en allt innanstokks gjöreyðilagðist og reykur komst í aðra íbúð og olli þar skemmdum.

Konan hafði komið sér út og inn í aðra íbúð, en lét ekki vita af eldinum. Hún var flutt á Slysadeild til rannsóknar vegna hugsanlegrar reykeitrunar og síðan vistuð í fangageymslu um stund, eða þar til löregla fékk inni fyrir hana á geðheilbrigðisstofnun. Þar mun hún gangast undir geðrannsókn og af niðurstöðu hennar ræðst framhald málsins.

Konan er talin hafa ógnað almannahagsmunum með framferði sínu.

Nágrannar hennar segjast vonast til að henni verði nú komið til hjálpar svo að þeir þurfi ekki lengur að óttast um líf sitt og heilsu í húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×