Erlent

Ungdomshuset verður jafnað við jörðu

Danska blaðið Politiken fullyrðir að Ungdomshuset verði jafnað við jörðu á tveimur dögum. Trúarsöfnuðurinn Faderhuset sem á húsið hefur boðað blaðamannafund í fyrramálið þar sem þeir ætla að greina frá ákvörðun sinni um framtíð hússins.

Heimildamenn Politiken úr byggingargeiranum fullyrða að þegar hafi verið ákveðið að rífa húsið, það verði gert á tveimur dögum. Byggingarverkamenn hafa þegar hafist handa við að fjarlægja innanstokksmuni og asbest úr húsinu, sem er einmitt nauðsynlegt að gera áður en það er rifið.

Ruth Evensen forstöðumaður Faderhuset hefur neitað að tjá sig í morgun um þessar fréttir Politken og vísar á blaðamannafundinn á morgun. Lengi hefur verið vafi um hvað verður um húsið en Faderhuset hafa fyrir nokkru aflað allra tilskilinna leyfa til að rífa húsið. Kaupmannahafnarlögreglan segist hlynnt því að húsið verði rifið, annars sé hætta á því að húsið verði aftur hertekið af ungmennum.

Sökum þess hversu umdeilt málið er hafa fagfélög iðnaðarmanna mörg hver gefið út að meðlimir þeirra muni ekki taka þátt í niðurrifi hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×