Innlent

Stjórnarandstaðan tilbúin að greiða fyrir auðlindamáli á þingi

MYND/GVA

Þingflokkar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Frjálslynda flokksins lýsa sig reiðubúna til að greiða fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði tekið upp í stjórnarskrá.

Þingflokkarnir samþykkja jafnframt að afgreiðsla frumvarps til nýrra stjórnskipunarlaga með slíku innihaldi verði forgangsmál í störfum Alþingis það sem eftir lifir þingtímanum. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem stjórnarandstaðan efndi til í dag um málið en það hefur verið bitbein milli stjórnarflokkanna síðustu daga.

Þingflokkar stjórnarandstöðunnar telja í ljósi mikilvægis málsins fyllilega réttlætanlegt að lengja þinghaldið um einhverja daga umfram það sem starfsáætlun gerir ráð fyrir ef með þarf til að ljúka afgreiðslu þess, en að óbreyttu lýkur vorþingi 15. mars.

Er það sameiginlegt mat þingflokka stjórnarandstöðunnar að sá efniviður og tillögugerð sem fyrir liggur í áliti auðlindanefndar frá árinu 2000 og í tillögum vinnuhóps stjórnarskrárnefndar um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál myndi fullnægjandi grundvöll til að ljúka málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×