Innlent

Aftur í pápískuna

Baldur Kristjánsson, sóknarprestur og fyrrverandi biskupsritari vill að Þjóðkirkjan sameinist Kaþólsku kirkjunni undir forsæti páfa. Telur hann sýnt að fækka muni áfram í Þjóðkirkjunni en nú þegar er fimmti hver Íslendingur utan hennar eða yfir fimmtíu þúsund manns.

Það eru tíðindi þegar Þjóðkirkjupresturinn í Þorlákshöfn og fyrrverandi biskupsritari, Baldur Kristjánsson heldur þeirri skoðun á lofti að það þurfi að hefja viðræður um sameiningu Þjóðkirkju og Kaþólsku kirkjunnar. Í Silfri Egils í gær vísaði hann til fordæmis frá Bretlandi þar sem viðræður hafa verið lengi í gangi um að sameina Ensku biskupakirkjuna Kaþólsku kirkjunni. Þá á að stefna að því að kirkja krists sé ein og óskipt að mati Baldurs enda sé um það kveðið í ritningunni.

Séra Baldur telur að það þurfi að yfirvinna býsna margt til að ná þessari sameiningu. Helst muni kaþólskir eiga erfitt með að fella sig við vígslu kvenpresta. Baldur bendir á að þróunin á Íslandi sé í átt til frekari fækkunar í Þjóðkirkjunni - en eins og fjallað var um í Kompásþætti nýverið hefur hlutfall Þjóðkirkjuþegna hraðminnkað. Nú eru tæplega 20% landsmanna utan þjóðkirkjunnar - meira en fimmtíu þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×