Innlent

Sjálfstæðisflokkur og VG samstiga gegn ESB

Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn hafa lagt fram sameiginlega bókun úr starfi Evrópunefndar. Þetta staðfestu nefndarmenn við Fréttablaðið í gær. Skýr afstaða gegn Evrópusambandsaðild kemur fram í bókuninni.

Í drögum af niðurstöðum nefndarstarfsins, sem stýrt er af Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra, kemur fram að engar líkur séu á því "að samist geti um milli Íslands og ESB, að 200 mílna efnhagslögsagan umhverfis Ísland verði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnunarkerfi undir stjórn Íslendinga [...] Það er niðurstaða nefndarinnar að Íslendingar geti ekki framselt yfirráðin yfir þeim miklu auðæfum sem þar er að finna til Evrópusambandsins, án þess að hafa nokkra vissu fyrir hvaða reglum verði fylgt í sjávarútvegsmálum á komandi áratugum."

Í niðurstöðunum er einnig frá því greint að réttur ríkja til þess að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki myndi niður falla við aðild að Evrópusambandinu. "Nefndin telur því afar óhyggilegt fyrir Íslendinga að glata réttinum til að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki."

Framsóknarflokkurinn hyggst leggja fram sérstaka bókun líkt og Samfylkingin.

Brynjar Sindri Sigurðsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins í nefndinni, og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, útilokuðu ekki í gær að flokkurinn tæki undir með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki en sögðu líklegra að flokkurinn léti nægja að leggja fram sérstaka bókun.

Nefndarmenn funda í Þjóðmenningarhúsinu í hádeginu í dag. Björn Bjarnason var ekki tilbúinn til þess að greina frá vinnu nefndarinnar þar sem nefndarvinnu væri ekki lokið.

Í lokaorðum í drögum að niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að þótt aðild að ESB fylgi ýmsir kostir sé "hitt fullljóst að þeir hagsmunir og réttindi sem glatast við aðild vegi miklu þyngra en kostirnir". - mh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×