Innlent

Fjölgun ríkisstarfa á Vestfjörðum í skoðun

Höfnin á Ísafirði. Bæjarstjóri Ísafjarðar segir óskiljanlegt að Reykjavíkurhöfn fái allar tekjur af inn- og útflutningi. Hann leggur jafnframt ríka áherslu á að flutningskostnaður verði lækkaður.
Höfnin á Ísafirði. Bæjarstjóri Ísafjarðar segir óskiljanlegt að Reykjavíkurhöfn fái allar tekjur af inn- og útflutningi. Hann leggur jafnframt ríka áherslu á að flutningskostnaður verði lækkaður. Mynd/Halldór

„Vissulega er dapurlegt að sjá hversu margt fólk hefur verið að flytjast að vestan, frá þessum blómlegu byggðum sem eitt sinn voru, og við viljum auðvitað ganga í lið með heimamönnum til að sporna gegn því." Þetta segir Geir H. Haarde forsætisráðherra sem í gær setti á laggirnar vinnuhóp til að skoða með hvaða hætti ríkisvaldið geti komið að lausn mála.

Geir segir Vestfirðinga hafa lagt fram ýmsar hugmyndir og að helst sé rætt um fjölgun opinberra starfa.

Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðar, sem situr í vinnuhópnum ásamt framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfjarða og fulltrúum forsætis- og iðnaðarráðuneytisins, segir að þegar atvinnulífið gefi eftir tímabundið eigi ríkisvaldið að fjölga störfum. „Það er stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum úti á landi en það hefur ekki gerst." Hann bendir á að fjöldi opinberra stofnana hafi starfsemi á Vestfjörðum og hana megi efla og útvíkka. „Ég tel að fjölga megi störfum við Fjölmenningarsetur Vestfjarða, hjá Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofu, Matís, Veðurstofunni og hjá sýslumannsembættunum," segir Halldór og vill að hundrað ný opinber störf verði til á Vestfjörðum á næstu tveimur árum.

 

Geir H. Haarde

Hann leggur jafnframt ríka áherslu á að flutningskostnaður verði lækkaður. „Þannig verður samkeppnisstaða fyrirtækjanna bætt sem er réttlætismál. Ég hef aldrei skilið hvaða rök búa að baki því að Reykjavíkurhöfn fái allar tekjur af inn- og útflutningi."

Forsvarsmenn sveitarfélaga á Vestfjörðum gengu á fund ríkisstjórnarinnar í byrjun febrúar og gerðu ráðherrum grein fyrir þróun mála. Síðan þá hefur Marel afráðið að loka starfsstöð sinni á Ísafirði. Fjölmennur borgarafundur um atvinnu- og byggðamál var haldinn á Ísafirði á sunnudag.

 

Halldór Halldórsson

Spurður hvort tími sértækra björgunaraðgerða í byggðamálum sé ekki liðinn, svarar Geir H. Haarde því til að ekki sé endilega verið að tala um slíkar aðgerðir. „Við erum að velta þessu fyrir okkur á almennari grundvelli en þó þannig að það nýtist Vestfirðingum." Spurður hvort til greina komi að ráðast í frekari samgöngubætur en þegar eru áformaðar segir Geir að mikið átak sé framundan á því sviði og varla hægt að gera mikið meira í þeim efnum í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×