Erlent

Tengsl við offitu og sykursýki

Karlmenn þurfa að passa sig á þalötum, ef marka má niðurstöður vísindamanna.
Karlmenn þurfa að passa sig á þalötum, ef marka má niðurstöður vísindamanna. MYND/Getty

Þalöt nefnast efnasambönd sem algeng eru í plastefni hvers konar, sápum og fleiri algengum hlutum í daglegu umhverfi okkar. Áður hafa vísindamenn fundið tengsl þalata við ófrjósemi, en nú hafa einnig fundist tengsl við offitu og insúlínþol í fullorðnum karlmönnum.

Það voru vísindamenn við háskólann í Rochester í New York ríki, Bandaríkjunum, sem komust að þessum niðurstöðum eftir að hafa rannsakað gögn úr víðtækri heilbrigðis- og næringarkönnun sem gerð var í Bandaríkjunum og náði til áranna 1999 til 2002.

Sagt er frá rannsókninni, sem unnin var undir forystu Richards Stahlhuts, í vefútgáfu tímaritsins Environmental Health Perspectives.

Þalöt hafa verið mikið notuð síðustu hálfu öldina eða svo, en stutt er síðan grunur kviknaði um að heilsu fólks gæti stafað hætta af þeim. Efnin er meðal annars að finna í sápum, snyrtivörum, málningarvörum og skordýraeitri að ógleymdum plastefnum. Þalöt mýkja plastið og gerir þannig nothæfni þeirra fjölbreyttari.

Rannsóknir á dýrum hafa sýnt að þalöt draga úr testosterónmagni í líkama þeirra. Nýlegar rannsóknir á karlmönnum hafa síðan sýnt að þalöt valda því að sæðisfrumum fækkar í sæðisvökva karla. Þá hafa einnig greinst breytingar á kynfærum ungra drengja.

Bæði insúlínþol, sem eykur líkur á sykursýki, og offita eru talin tengjast lágu testosterónmagni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×