Innlent

Aðalleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur styttist

Aðalleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur styttist um fjörutíu kílómetra með nýjum vegi um Tröllatunguheiði, sem lagður verður á næstu tveimur árum. Tilboð í vegagerðina voru opnuð í gær og var lægsta boð upp á 660 milljónir króna.

Nýi vegurinn liggur úr Reykhólasveit yfir í Steingrímsfjörð og er lengd útboðskaflans um 25 kílómetrar. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. september 2009. Lægsta boð átti Ingileifur Jónsson, upp á tæpar 662 milljónir króna, sem var 76 prósent af kostnaðaráætlun. Þar á eftir komu Klæðning og KNH verktakar en hæsta boð átti Ístak, sem bauð um 880 milljónir en kostnaðaráætlun var upp á 865 milljónir.

Ljóst er að áhrif þessarar vegagerðar verða víðtækari en margir gæti ætlað við fyrstu sýn. Við opnun vegarins má gera ráð fyrir að sú Vestfjarðaumferð sem nú fer um Holtavörðuheiði og Strandir muni færast að mestu yfir á nýja veginn, enda er þessi leið um 40 kílómetrum styttri.

Hólmavík yrði eftir sem áður í vegarsambandi við Ísafjarðarumferðina en í stað þess að hún fari um Hrútafjörð mun hún fara um Bröttubrekku, Búðardal og Gilsfjörð. Þannig mun nýi vegurinn ekki aðeins efla samskipti milli Hólmavíkur og Reykhólasveitar heldur sennilega skapa Dalamönnum fleiri störf við að þjónusta þá auknu bílaumferð, sem fara mun í gegn hjá þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×