Innlent

Gekk berserksgang á Miklubraut

Óður maður réðist á karlmann á áttræðisaldri á Miklubrautinni á tíunda tímanum í morgun og þurfti lögregla að hlaupa uppi árásarmanninn og beita úðavopni til þess að hafa hemil á honum. Að sögn lögreglu lét árásarmaðurinn öllum illum látum fyrir utan hús á Miklubraut og reyndi að brjótast þar inn.

Vegfarandinn varð fyrir barðinu á honum að því er virðist án nokkurs tilefnis og var því kallað á lögreglu. Hún reyndi að stöðva árásarmanninn sem tók á rás upp Miklubrautina en hann var stöðvaður á móts við Lönguhlíð. Þurfti sex lögreglumenn til þess að halda honum en fjórir lögreglubílar tóku þátt í aðgerðinni. Var í annarlegu ástandi
MYND/Rakel S Jóhannsdóttir
Lögregla segir manninn hafa verið í annarlegu ástandi en ekki er vitað hvort hann var undir áhrifum fíkniefna. Aldraða fórnarlambið var flutt á slysadeild ásamt einum lögrelgumanni en að sögn vakthafandi læknis meiddust þeir ekki alvarlega. Árásarmaðurinn var einnig fluttur á slysadeild þar sem úðinn, sem lögregla notaði, var hreinsaður úr augum hans. Síðan var hann fluttur í fangageymslur. Árásarmaðurinn er rúmlega þrítugur og að sögn lögreglu er hann ekki einn af góðkunningjum þeirra.

Sjónarvottar sem búa við Miklubrautina segja mikil læti hafa verið í manninum, hann hafi öskrað hátt og látið öllum illum látum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×