Innlent

Slæmt að Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins

Forsætisráðherra telur miður að Hafnfirðingar hafi hafnað stækkun álversins í Straumsvík og segir að hagur bæjarfélagsins og íbúanna verði verri fyrir vikið. Sérfræðingar hjá greiningardeild Glitnis segja að líkur á mjúkri lendingu í efnahagslífinu hafi aukist, vegna niðurstöðu kosninganna.

Ef Hafnfirðingar hefðu samþykkt stækkun álversins á laugardag, hefðu framkvæmir við stækkunina væntanlega hafist bráðlega. En í þeirri þenslu sem nú ríkir í efnahagslífinu, hefði slík framkvæmdt geta viðhaldið spennu í efnahagslífinu.

Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur hjá greiningardeild Glitnis, segir að nú þegar ljóst sé að ekkert verði að stækkuninni, minni spennan og vextir og verðbólga muni því lækka fyrr en ella.

Þrátt fyrir þessa skoðun Glitnismanna telur forsætisráðherra að áhrif þessarar niðurstöðu séu neikvæðar. "Þetta þýðir að afkoma Hafnarfjarðarbæjar á næstu árum verður ekki eins góð og hún hefði orðið," segir Geir H Haarde forsætisráðherra. Væntanlega þýði þetta líka eitthvað rírari lífskjör hjá þeim sem hefðu fengið vinnu í stækkuðu álveri.

"Að sjálfsögðu hefðu menn viljað sjá hér hærri tekjur. Íbúarnir voru hins vegar að taka ákvörðun út frá öllum þeim forsendum sem málið snérist um," segir Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði. Tekjurnar hafi verið einn þáttur í málinu, en virða beri þá niðurstöðu sem liggur fyrir.

Forsætisráðherra segir að ekki sé hægt að draga þá ályktun af niðurstöðum kosninganna að þar hafi því verið hafnað almennt að virkja fyrir stóriðju.

"Þetta gæti haft það í för með sér að önnur verkefni fari hraðar í gang. Um það er ómögulegt að segja og ég veit ekki hvernig verksmiðjan og eigendur hennar munu bregðast við þessu. Hvort þeir grípi til einhverja aðgerða eða ekki," segir forsætisráðherra. Aðrir verði að svara því.

Forsætisráðherra segir að sér finnist miður að stækkun álversins hafi verið hafnað í kosningunum. "Ég var búinn að segja það fyrir þessar kosningar að ég hefði greitt atkvæði með þessari stækkun ef ég byggi í Hafnarfirði. Þetta er mikilvægt mál fyrir bæjarbúa og fyrir bæjarsjóð og auðvitað fyrir landsmenn alla," segir forsætisráðherra. En væntanlega komi eitthvað annað í staðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×