Innlent

Fá greitt að fullu og flug heim

Sjómennirnir á Bjarma mega eiga von á að fá greitt að fullu og flugfar heim, en þeir komu hingað hinn 12. janúar. Síðan hafa þeir beðið í bátnum eftir að siglt verði.
Sjómennirnir á Bjarma mega eiga von á að fá greitt að fullu og flugfar heim, en þeir komu hingað hinn 12. janúar. Síðan hafa þeir beðið í bátnum eftir að siglt verði. MYND/Heiða

Vinnumarkaður Gert verður upp á mánudaginn við pólsku sjómennina sem búa í Bjarma BA-326. Níels Ársælsson útgerðarmaður segir að aldrei hafi staðið til að svíkja mennina um greiðslu.

Níels ætlar að funda með Hólmgeiri Jónssyni, framkvæmdastjóra Sjómannasambandsins, á mánudaginn og sýna honum kvittanir, uppgjör og skattkort, sem sýni fram á að mennirnir hafi verið ráðnir samkvæmt íslenskum kjarasamningum. „Síðan verður gengið frá því skriflega hvað stendur eftir, hvað vantar upp á,“ segir Níels. Honum beri enda skylda til að greiða fulla kauptryggingu fyrir biðtímann. Sjómönnunum verði að auki boðið að fljúga heim og aftur hingað þegar útgerðin fái kvóta.

Laun mannanna verða því ekki greidd eftir þeim grunnlaunum sem sagt var frá í Fréttablaðinu þann 13. apríl. „Það er ekki rétt að þeir hafi verið ráðnir upp á 35.000 krónur á viku. Þeim er borgað eftir samningi sem er í gildi milli LÍÚ og Sjómannasambands Íslands,“ segir Níels.

„Það verður gert mjög vel við þessa menn. Það stóð aldrei til að svíkja þá og ég hef ekki svikið þessa menn, heldur voru það íslensk stjórnvöld sem sviku þá og mig. Okkur var ekki gert kleift að róa,“ segir Níels og vísar til þess að hann fái hvergi aðkeyptan kvóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×