Innlent

Hafði ekki hugmynd um að stúlkan tengdist ráðherra

Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður, Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í allsherjarnefnd, segir ekkert athugavert við að hinni 22 ára gömlu Luciu Celeste Molina Sierra var veittur íslenskur ríkisborgararéttur þrátt fyrir að hafa aðeins búið hér á landi í 15 mánuði. Stúlkan mun vera kærasta sonar Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra og er með lögheimili á heimili ráðherra. Hún segist ekki hafa haft hugmynd um að stúlkan tengdist Jónínu. Hún segist heldur ekki muna hvers vegna stúlkan hafi talist hæf til að hljóta undanþágu frá venjulegum reglum um veitingu ríkisborgararéttar.

„Það er ekkert sérstakt við þetta mál," segir Guðrún Ögmundsdóttir, aðspurð hvers vegna stúlkunni hafi verið veittur ríkisborgararéttur þrátt fyrir að hafa aðeins búið hér í stuttan tíma. Hún segir það í höndum Alþingis að taka fyrir undanþágur af þessu tagi og að það sé ekki einstakt að einstaklingar fái ríkisborgararétt þrátt fyrir að hafa aðeins búið hér í stuttan tíma. „Ég minni bara á mál Bobby Fischers," segir Guðrún. Alls sóttu 38 manns um ríkisborgararétt til Alþingis en aðeins 18 hlutu náð fyrir augum nefndarinnar. Í Kastljósi var sagt frá því að einungis þrír þingmenn úr allsherjarnefnd hafi komið að ákvörðunartökunni, þau Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, Guðjón Ólafur Jónsson, varaformaður og Guðrún.

Guðrún segist ekki tjá sig um einstök mál sem fyrir nefndina koma og ennfremur að hún muni ekki málsatvik í þessu sérstaka tilviki. Nefndarmenn eru bundnir trúnaði og hún segir það ekki hafa tíðkast að færa þurfi rök fyrir því að þessar undanþágur séu veittar. „Við höfum ekki þurft að gera það hingað til," sagði hún og bætti við að ástæður fyrir því að undanþágur séu veittar geti verið margvíslegar.

Hún segist ekki hafa haft hugmynd um að stúlkan hafi verið með lögheimili á heimili Jónínu. „Ég er ekki með heimilisföng þingmanna í hausnum og hafði ekki hugmynd um þessi tengsl," sagði Guðrún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×