Innlent

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins óttast afskiptasemi forseta Íslands

Full ástæða er til þess að hafa áhyggur af því að forseti Íslands muni skipta sér af stjórnarmyndun eftir komandi kosningar að mati Ástu Möller, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram á bloggsíðu þingmannsins.

Á heimasíðu sinni vísar Ásta til Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins frá því síðasta sunnudag þar sem þeirri hugmynd er velt fram að Ólafur Ragnar Grímsson muni mögulega reyna hafa áhrif á stjórnarmyndun eftir kosningar. Segir Ásta hugsanlega virka íhlutun forseta Íslands í stjórnarmyndun vera áhyggjuefni og ógnun við lýðræðið í landinu. Hún segir mikilvægt að allt frumkvæði í stjórnarmyndun verði á höndum forystumanna flokkanna, án afskipta og íhlutunar forsetans.

„Eftir að forsetinn greip inn í varðandi fjölmiðlalögin finnst mér full ástæða til að hafa áhyggjur af því að hann fari aftur út fyrir sitt valdsvið," sagði Ásta í samtali við Vísi. „Forsetinn á að mínu mati að miðla málum en ekki vera með afskipti."

Ásta Möller var boðið í viðtal á Stöð 2 vegna málsins nú í dag. Í fyrstu samþykkti þingmaðurinn boðið en hringdi skömmu síðar og afboðaði. Taldi hún ekki rétt að tjá sig meira um málið að svo stöddu.

Sjá má ummæli Ástu á heimasíðu hennar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×