Innlent

Formaður Framsóknarflokksins næði ekki inn

Framsóknarflokkurinn tapar manni sínum, samkvæmt nýrri könnun á fylgi flokka í Reykjavíkurkjördæmi norður, sem Félagsvísindastofnun vann fyrir fréttastofu Stöðvar 2. Vinstri hreyfingin grænt framboð tvöfaldar fylgi sitt og gott betur en flokkurinn mælist nú með um 22 prósenta fylgi og bætir við sig manni. Sjálfstæðismenn bæta einnig við sig manni og fá 34,5 prósent atkvæða. Samfylkinging mælist með tæp 30 prósent fylgi og tapar manni samkvæmt þessu. Frjálslyndir og Íslandshreyfingin kæmu ekki inn manni yrði þetta niðurstaða kosninganna í maí. Frjálslyndi flokkurinn mælist með um 6 prósent fylgi og Íslandshreyfingin með 2,8 prósent.

Framsóknarflokkurinn tapar samkvæmt könnuninni um sjö prósentum frá kosningunum 2003 og yrðu þetta niðurstöður kosninganna kæmist Jón Sigurðsson, formaður flokksins, ekki inn á þing. Kjördæmið á níu kjördæmakjörna þingmenn og tvo jöfnunarmenn og ef kosningarnar fara á þennan veg fá Sjálfstæðismenn fjóra kjördæmakjörna þingmenn, Samfylkingin fengi þrjá og VG tvo. Næstir inn sem kjördæmakjörnir eru fjórði maður á lista Samfylkingar eða þriðji maður á lista VG, á kostnað fjórða manns Sjálfstæðisflokks. Talsverðar breytingar yrðu þó að verða til að það gerðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×