Innlent

Persónuvernd með Alcoa til skoðunar

Spurt er ítarlega um heilsufarssögu starfsmanna og fjölskyldu þeirra á umsóknareyðublaðinu.
Spurt er ítarlega um heilsufarssögu starfsmanna og fjölskyldu þeirra á umsóknareyðublaðinu.

Persónuvernd hefur til skoðunar hvort Alcoa-Fjarðaál kunni að ganga of langt, og hugsanlega brjóta lög, með því að láta starfsmenn fylla út ítarleg eyðublöð um heilsufar sitt og félagslíf, auk ítarlegra upplýsinga um heilsufar fjölskyldu viðkomandi.

Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd, staðfesti að umsóknareyðublöð þar sem ítarlegra upplýsinga er krafist væru til skoðunar hjá stofnuninni en hún væri ekki langt komin.

Meðal annars er spurt ítarlega úti í sjúkdóma- og veikindasögu fjölskyldu starfsmanna. Spurt er um hvort hátt kólesteról sé vandamál hjá fjölskyldumeðlimum, blóðleysi, astmi, áfengissýki, offita og aðrir alvarlegri sjúkdómar, til dæmis hjartaáföll og krabbamein.

Ítarlega er spurt út í félagslega sögu starfsmanna. Undir liðnum áfengisnotkun eru umsækjendur spurðir hvort þeim hafi „liðið illa eða verið með samviskubit vegna notkunar áfengis eða vímuefna“ og einnig hvort viðkomandi hafi „orðið pirraður á einhverjum sem gagnrýnir“ hann fyrir notkun áfengis eða vímuefna.

Umsækjendur er vinsamlegast beðinn um að veita sem „ítarlegastar upplýsingar.“ Tekið er fram að upplýsingarnar séu ekki veittar þriðja aðila nema „lögleg krafa eða heimild leyfi það.“ Einnig kemur fram að upplýsingunum sé ætlað að veita bakgrunn fyrir heilsufarsskrá starfsmanna og vera lækni til hliðsjónar við heilsufarsskoðun. Stjórnendur fá ekki aðgang að upplýsingunum samkvæmt því er fram kemur á umsóknareyðublaðinu.

Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa-Fjarðaáls, segir fyrirtækið vera með þessu að tryggja að öryggi og heilsa starfsmanna sé í algjörum forgangi hjá fyrirtækinu, því hægt sé að taka tillit til heilsufars starfsmanna þegar fundið er starf fyrir þá.

Heilsufarsupplýsingarnar eru geymdar hjá fyrirtækinu InPro sem veitir Alcoa-Fjarðaál ráðgjöf um hvernig best sé að tryggja öryggi starfsmanna fyrirtækisins, með tilliti til upplýsinganna sem eru í gagnagrunninum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×