Innlent

Óvissa um stórtónleika í Reykjavík

Þann 7. júlí næstkomandi verða haldnir tónleikar undir nafninu Live Earth í nokkrum helstu borgum heims. Reykjavík kemur til greina sem einn tónleikastaðanna og óskað hefur verið eftir fjárstyrk frá íslenska ríkinu vegna verkefnisins.

„Ég sendi erindi til forsætisráðuneytisins í byrjun janúar þar sem ég óskaði eftir styrk en ég hef ekki fengið svör,“ segir Kári Sturluson, „sendiherra“ Live Earth á Íslandi.

Reiknað er með að tveir milljarðar fylgist með tónleikunum í beinni útsendingu en markmið þeirra er að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismál. Kári segir að hróður íslenskra tónlistarmanna, íslensk náttúra og þekking Íslendinga á umhverfisvænni orku hafi vakið áhuga forsvarsmanna Live Earth. Skipuleggjendur eru að hluta til þeir sömu og sáu um Live 8 tónleikana árið 2005.

Áætlaður kostnaður við tónleikana er um 80 milljónir króna. Upphaflega hljóðaði styrkbeiðnin upp á 25 milljónir króna en nú óskar Kári eftir 15 milljónum í styrk.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir að það sé alla jafna ekki í verkahring stjórnvalda að halda tónleika. „Við höfum alls ekki tekið afstöðu gegn málefninu og styrkbeiðnin er enn til umfjöllunar,“ segir Ragnheiður.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×