Innlent

Stjórnarmyndun á lokstigi

Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar virðast vera á lokastigi. Formenn flokkanna héldu því fram í dag að góður skriður væri í viðræðunum. Þingmenn sem fréttastofa ræddi við telja ekki ólíklegt að stjórnarsáttmáli og ráðuneytaskipting verði borin undir þingflokkana á morgun.

Formenn flokkana tveggja hófu fundarsetuna á Þingvöllum um hádegisbil í dag en í gær var setið fram á kvöld. Ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingar og Geir H Haarde, forsætisráðjherra voru á fundunum Össur Skarphéðinsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Agúst Ólafur Ágústsson - og framkvæmdastjórar flokkana- Skúli Helgason, Samfylkingu og Andri Óttarsson, Sjálfstæðisflokki.

Formennirnir vörðust allra frétta af gangi viðræðnanna eða frágangi einstakra efnisatriða. Viðræðurnar virðast þó komnar býsna langt miðað við heimildarmenn Stöðvar 2 úr þingliði flokkana tveggja. Jafnvel er fullyrt að svo mikil vinna sé að baki að það náist að ljúka textavinnu stjórnarsáttmála í kvöld. Sú vinna hafi farið í frágang uppúr miðjum degi og sé á lokastigi.

Jafnhliða hafi byrjað viðræður milli forystumanna um skiptingu ráðuneyta - sem er lokastig viðræðnanna. Ekki hefur fengist fullnægjandi staðfesting á þessu en heimildarmenn úr þingflokkunum sem fylgst hafa með viðræðunum úr fjarlægð telja það jafnvel mögulegt að stjórnarmyndunarviðræðunum ljúki í kvöld.

Verði þá ekkert að vanbúnaði kalla þingflokka Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks saman á morgun til þess að bera stjórnarsáttmála og ráðuneytaskiptingu undir þá. Eftir því sem næst verður komist er stefnt að því að formenn flokkana hitti þingmenn í þingflokkunum á einstaklingsfundum þegar stjórnarsáttmáli og ráðuneytaskipting liggur fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×