Innlent

Ásakanir Steingríms tilhæfulausar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þórhallur Gunnarsson, ristjóri Kastljóssins.
Þórhallur Gunnarsson, ristjóri Kastljóssins. MYND/365

Ásakanir Steingríms Sævarrs Ólafssonar, umsjónarmanns Íslands í dag, um að Ríkisjónvarpið standi í hótunum við fólk eru tilhæfulausar og rangar að sögn Þórhalls Gunnarsson, ritstjóra Kastljóss. Hann segist ekki blanda saman störfum sínum sem ritstjóri Kastljóss og dagskrástjóri RÚV. Þorsteinn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður, segir Ríkissjónvarpið ekki hafa beitt sig þrýstingi.

„Ég hef ekki hótað neinum manni og ásakanir Steingríms eru því alrangar," sagði Þórhallur Gunnarsson, ristjóri Kastljóss, í samtali við Vísi. „Ég er fyrir löngu búinn að gera samning um kaup á þessari mynd og blanda ekki saman störfum mínum sem ritstjóri Kastljóss og dagskrástjóri RÚV."

Steingrímur Sævarr Ólafsson, umsjónarmaður Íslands í dag, gagnrýnir vinnubrögð starfsmanna Kastljóssins harðlega á bloggsíðu sinni í dag. Segir hann starfsmenn Kastljóss hóta viðmælendum til þess að koma í veg fyrir að þeir mæti í viðtal í Íslandi í dag. Nefnir hann sérstaklega eitt dæmi í tengslum við fyrirhugað viðtal við Þorstein Jónsson, kvikmyndagerðarmann. Að sögn Steingríms á Ríkissjónvarpið að hafa hótað því leynt og ljóst að falla frá kaupum á kvikmynd Þorsteins eftir að hann ákvað að mæta frekar í viðtal í Íslandi í dag heldur en í Kastljósið.

Þorsteinn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður, sagði í samtali í Vísi ekki rétt að honum hafi verið hótað af hálfu Ríkissjónvarpsins. Hann segir málið byggjast á misskilningi. Upphaflega hafi hann ætlað sér að mæta í viðtal í Íslandi í dag en hætt við eftir að Kastljósið bauð honum líka. „Steingrímur hefur kannski misskilið þetta sem svo að mér hafi verið hótað. Báðar stöðvarnar vildu fá mig í viðtal. Ég kaus hins vegar Kastljósið og það sem réð úrslitum var að Ríkissjónvarpið hefur keypt myndina mína. Engum var hótað. Það var einfaldlega bara mitt val að fara frekar í Kastljósið," sagði Þorsteinn í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×