Viðskipti innlent

Tryggvi Jónsson fjárfestir í Apple umboðinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Seldi í Heklu en keypti í Apple
Tryggvi Jónsson hefur fest kaup á ríflega 28% hlutabréfa í Humac ehf., sem á og rekur Apple á Íslandi og á Norðurlöndunum. Félag í eigu Tryggva, Sanderson ehf., kaupir út hluthafana F. Bergsson Holding ehf. og Hlunn ehf. Kaupverð fæst ekki gefið upp.

 

 

Tryggvi segir að viðræður um kaupin hafi verið í gangi í all nokkurn tíma. Hann telur að kaupin feli í sér spennandi tækifæri. Vaxtarmöguleikar Apple séu miklir. Hlutdeild fyrirtækisins á markaði með einkatölvur sé einungis um 3-4% á Norðurlöndunum sem sé mun minna en í Bandaríkjunum og á Íslandi. Þá segir hann að Apple sé sífellt með nýjar vörur í þróun og skemmst sé að minnast á iPhone sem komi á markað í Bandaríkjunum í lok mánaðarins. Ekki er vitað hvenær iPhone kemur út hér á landi.

 

 

Tryggvi segir ennfremur að vaxtarmöguleikar Humac ehf. séu miklir. Fyrirtækið skili hagnaði og veltan sé mikil. Hann sér því möguleika á því að fyrirtækið geti stækkað frekar á Bretlandsmarkaði og í Evrópu .

 

 

Að loknum þessum viðskiptum eru Sanderson ehf., Baugur Group ehf. og Grafít ehf. stærstu hluthafarnir með samtals um 87% hlutdeild í félaginu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×