Innlent

Fá ekki pláss í leikskóla sökum þess að erlend börn hafa forgang

Höskuldur Kári Schram skrifar
Erlend börn hafa forgang í Hafnarfirði.
Erlend börn hafa forgang í Hafnarfirði. MYND/365

Dæmi eru um að börn íslenskra foreldra fái ekki pláss í leikskólum í Hafnarfirði þar sem erlend börn ganga fyrir. Fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar segir æskilegast að börn af erlendum uppruna komist sem fyrst inn í leikskóla til að flýta fyrir aðlögun að íslensku samfélagi.

„Það er talið mjög æskilegt að börn af erlendum uppruna komist sem fyrst inn í skólann," sagði Magnús Baldursson, fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar, í samtali við Vísi. „Við erum með ákveðnar reglur varðandi forgang. Börn af erlendum uppruna ganga þannig fyrir sem og börn einstæðra foreldra. Hvert tilviki er þó metið sérstaklega."

Verið er að vinna úr umsóknum um pláss í leikskólum í Hafnarfirði fyrir næsta vetur. Að sögn Magnúsar eru alltaf einhverjir biðlistar en markmiðið er að öll börn fædd árið 2005 og fyrr fái pláss.

Dæmi eru um að börn íslenskra foreldra fái ekki pláss í leikskólum Hafnarfjarðar næsta haust þar sem erlend börn ganga fyrir. Í einu tilviki um er að ræða 18 mánaða gamalt barn. Þegar foreldra þess leituðu skýringa hjá bæjaryfirvöldum fengust þau svör að þau þyrftu að bíða þar sem erlend börn hefðu verið tekin fram fyrir.

Magnús segir það stefnu bæjaryfirvalda að öll 18 mánaða gömul börn og eldri fái pláss á leikskóla. Nú sé verið að bæta við 40 plássum fyrir næsta haust. „Markmiðið er að öll 18 mánaða gömul börn og eldri fái pláss. Ég veit hins vegar ekki hvort við náum því markmiði fyrir næsta haust."

Alls voru um 11 þúsund börn í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári. Þar af voru 873 með erlent móðurmál.

Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og leikskólasviði Reykjavíkurborgar hafa erlend börn ekki sérstakan forgang að leikskólaplássi í borginni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×