Innlent

Eldveggur kom í veg fyrir enn meira tjón

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Milljónatjón varð í eldsvoða í iðnaðarhúsi á Selfossi í gærkvöldi en gríðarlegar skemmdir urðu á bifreiðaverkstæði sem starfrækt var húsinu. Smurstofa í sama húsi slapp hins vegar að mestu leyti. Eldveggur í húsinu kom í veg fyrir enn stærra tjón.

Gríðarlegt eignatjón varð þegar kviknaði í bifreiðaverkstæði við Gagnheiði á Selfossi í gærkvöldi. Allt tiltækt slökkvilið Selfoss var kallað út og naut það einnig aðstoðar slökkviliðsmanna frá Hveragerði. Í húsinu er rekið bílaverkstæði og matvinnsla og var eldurinn einvörðungu laus í þeim hluta hússins þar sem bílaverkstæðið var starfrækt.

Tveir fornbílarnir, nýlega uppgerðir, voru á verkstæðinu þegar eldurinn varð laus og því er tjónið tilfinnanlegt.

Að sögn slökkviliðsmanna á Selfossi gekk greiðlega að slökkva eldinn og var slökkvistarfi lokið rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Samlokugerðin, sem er í sama húsi, slapp ótrúlega vel, ekki síst vegna þess hversu traustur eldveggurinn var í húsinu en slökkviliðsmenn báru mikið lof á hversu vel var vandað til hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×