Innlent

Lögreglan stöðvaði fyrsta pókermótið

Um 150 tóku þátt í fyrsta opinbera pókermótinu sem haldið er hérlendis á föstudaginn.
Um 150 tóku þátt í fyrsta opinbera pókermótinu sem haldið er hérlendis á föstudaginn. Fréttablaðið/Valli

Fyrsta opinbera pókermótið sem haldið var á landinu var stöðvað af lögreglu í fyrrakvöld. Lögregla lagði hald á verðlaunafé og spilavarning og yfirheyrði forsvarsmann mótsins.



„Lögreglan hafði afskipti af þessu, stoppaði mótið og lokaði staðnum,“ segir Jón H. Snorrason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Á milli 20 og 30 þátttakendur voru eftir af þeim 150 sem tóku þátt þegar lögreglan stöðvaði spilamennskuna.



Vefverslunin Gismo.is stóð fyrir mótinu. Sindri Lúðvíksson, forsvarsmaður mótsins, var færður til skýrslutöku hjá lögreglu og sleppt að henni lokinni. Að auki lagði lögregla hald á verðlaunafé á mótinu, um 600 þúsund krónur, auk spila og spilapeninga.



Lögreglumenn litu inn á mótið fyrr um dagin og höfðu tal af Sindra, en fóru án þess að aðhafast. Þegar mótið var langt komið kom lögreglan aftur og stöðvaði mótið.



„Þetta er talið varða við ákvæði hegningarlaga, sem banna fjárhættuspil, að standa að því eða stofna til fjárhættuspils,“ segir Jón H. Allt að eins árs fangelsisvist liggur við því að standa að fjárhættuspili, og segir Jón H. að þó nokkrir hafi verið sakfelldir fyrir að standa að fjárhættuspili á undanförnum árum.



Þáttur þeirra sem tóku þátt í mótinu er í skoðun. „Það er rökstuddur grunur um að þarna hafi átt sér stað refsivert athæfi.“

Sindri Lúðvíksson segir að afskipti lögreglu hafi komið sér á óvart, enda hafi forsvarsmenn mótsins álitið það löglegt þar sem þeir hafi ekki hagnast á því.



„Þetta er ekkert öðruvísi en briddsmót sem haldin eru þar sem fólk fær sín spil á hendi og spilar úr þeim. Þar er borgað þátttökugjald og félagið tekur hluta af því, sem við gerðum ekki,“ segir Sindri. Hann segist vonast til þess að fá til baka fé og búnað sem lagt var hald á. Skrifað hafi verið niður hver staðan hafi verið á mótinu, og því mögulegt að halda áfram spilamennsku verði niðurstaða lögreglumálsins skipuleggjendum mótsins í hag.


Tengdar fréttir

Ólíklegt að pókermót sé lögbrot

Afar hæpið er að kalla það sem fram fór á pókermótinu fjárhættuspil í laganna skilningi, enda borgaður aðgangseyrir og keppt um verðlaunafé eins og tíðkast í ýmsum íþróttum, segir Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður. Því sé ólíklegt að lögbrot hafi verið framið á pókermótinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×