Lífið

Fyrrverandi starfsmenn Flass.net íhuga lögsókn

Carmen segist ekki hafa enn fengið greitt fyrir starf sem viðburðastjóri hjá Flass.net.
Carmen segist ekki hafa enn fengið greitt fyrir starf sem viðburðastjóri hjá Flass.net. MYND/Hörður

„Þeir skulda mér 350 þúsund krónur með dráttarvöxtum," segir Carmen Jóhannesdóttir fyrrverandi viðburðastjóri hjá FL Media, sem á og rekur útvarpsstöðina og viðburðafyrirtækið Flass.net.

Carmen segir að fyrirtækið hafi ekki greitt sér laun sem hún á inni hjá því. „Okkar leiðir lágu ekki saman og við skildum í góðu. Mér var hins vegar lofað greiðslum en þær hafa aldrei borist," útskýrir Carmen, sem hefur leitað ráða hjá lögfræðingum en verið ráðlagt að láta málið niður falla því það myndi aldrei svara kostnaði.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu á sunnudaginn er stál í stál milli hljómsveitarinnar XXX Rottweilerhundar og Óskars Axels Óskarssonar, markaðsstjóra FL Media. Hljómsveitin segir fyrirtækið ekki hafa staðið við umsamdar greiðslur fyrir tónleikahald. Sveitin hefur því stofnað heimasíðu undir nafninu oskaraxelskuldarpening.blogspot.com og krefst greiðslu.

„Við höfum ekki fengið greiddan helminginn af því sem við áttum að fá borgað fyrir þrenna tónleika með Basshunter," segir Erpur Eyvindarson, úr XXX Rottweiler. Óskar Axel og Ómar Vilhelmsson, framkvæmdastjóri flass.net, vísuðu þessu alfarið á bug á sunnudaginn og sögðu Erp sjálfan hafa fengið hundruð þúsunda. Vel gæti verið að einhverjar greiðslur væru útistandandi en það væru ekki háar upphæðir „Við spiluðum á Blood Hound Gang og fengum greitt fyrir það, ég skrifaði í Flass-blaðið og fékk greitt fyrir það. En fyrir Basshunter-tónleikana höfum við ekki fengið greitt," útskýrir Erpur.

Magnús Árni Gunnarsson, sem nýverið sagði upp starfi tónlistarstjóra hjá Flass.net, segir fyrirtækið einnig skulda sér laun upp á rúmar fjögur hundruð þúsund krónur. „Þetta er mjög leiðinlegt fyrir mig því ég var búinn að leggja mikla vinnu í þetta fyrirtæki," segir Magnús sem hefur ekki fengið að sjá neina launaseðla þrátt fyrir að hafa rekið á eftir þeim. Hann íhugar nú að höfða mál á hendur fyrirtækisins og sagðist vera ráðfæra sig við lögfróða menn.



ómar vilhelmsson segir fólki að senda reikninga og þá fái það greitt.
Ómar Vilhelmsson, framkvæmdarstjóri Flass.net, sagði í samtali við Fréttablaðið að umræddir aðilar ættu að skrifa reikninga og þeir yrðu þá greiddir. Magnús sagðist hins vegar alltaf hafa samið um að vera launþegi og allar greiðslur frá útvarpsstöðinni hefðu verið lagðar beint inn á reikning hans. Carmen segist hafa sent inn reikning og gefið þeim tækifæri þegar fyrirtækið var í kröggum en nú væri sá tími liðinn. „Við erum með þessi mál í skoðun og þau eru öll í réttum farvegi," segir Ómar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×