Skoðun

Kastljósið eina sanna

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur fellt úrskurð í máli Jónínu Bjartmarz gegn Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Úrskurðurinn er harður og athyglisverður að því leiti að það er ekki algengt að slíkur málarekstur sé stundaður gegn Ríkisútvarpinu.

Ég viðurkenni að ég hef ekki upplýsingar um slíkar kærur í seinni tíð, en fyrir margt löngu sat ég í siðanefnd blaðamannafélagsins um skeið og man ekki til að slíkar kærur hafi borist.

Þetta mál sýnir í hnotskurn hvað fjórða valdið í þjóðfélaginu getur verið sterkt. Ljóst er að Jónína Bjartmarz hafði engin áhrif á veitingu umrædds ríkisborgararéttar öfugt við það sem Kastljós lét að liggja. Það er hins vegar mjög líklegt að málatilbúnaður Kastljóssins hafi haft áhrif á úrslit Alþingiskosninga og innbyrðis röð þingmanna Framsóknarflokksins og sé ein af ástæðum þess að flokkurinn hefur nú ekki þingmann í Reykjavík.

Ég ætla mér ekki að fjalla um þetta mál í smáatriðum hér.

Það sem vakti athygli mína og undrun á þeim síðustu vikum fyrir kosningar sem málið var til umræðu var fyrirferð þess í umfjöllun Kastljóss, dag eftir dag, að þetta skyldi vera uppistaðan í umfjöllun þáttarins. Þótt forsvarsmenn þess segi nú að þeir hafi aldrei sagt að Jónína Bjartmarz hefði haft áhrif á málið, þá var persóna hennar undir og yfir og allt um kring í kynningu þessa máls, og það duldist engum.

Ég er undrandi yfir viðbrögðum Kastljóss og Ríkisútvarpsins við úrskurði siðanefndarinnar. Þau minna dálítið á þann hugsunarhátt sem alls staðar er hættulegur að við einir vitum, hjá öðrum stendur ekki steinn yfir steini. Hin eina sanna umfjöllun er hjá okkur, hinu eina og sanna Kastljósi. Slíkur hugsunarháttur er hættulegur fyrir þá sem hafa mikið vald og munu hafa það.

Það er til fyrirmyndar fyrir Blaðamannafélag Íslands að halda úti siðanefnd sem þeir geta leitað til sem finnst á sér brotið. Þó að úrskurðir hennar hafi ekki stöðu á við dóma dómstóla hafa þeir mikla þýðingu. Þeir eru aðvörun til þeirra fjölmiðla sem hlut eiga að máli og vonandi verða þeir áfram teknir alvarlega sem slíkir.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×